Fara í efni

KK Á FUNDI FÓLKSINS

KK - tónlistarmaður
KK - tónlistarmaður

Ágætlega mæltist Þeim sem töluðu við opnun „Fundar fólksins" í Norræna húsinu í dag, kynninum,  forstöðumanni Norræna hússins og ráðherra norrænnar samvinnu. Lestina rak Kristján Kristjánsson, KK, söngvarinn og trúbadorinn ágæti og það liggur við að ég bæti við, heimspekingurinn. KK þekkjum við fyrst og fremst með gítarinn og röddina sem hefur fylgt okkur i gegnum tíðina.  Á opnunarhátíðinni „fílósóferaði" hann á áhrifamikinn hátt um fordóma og fordómaleysi og hve mikilvægt það væri að fólk reyndi að ná saman í samræðu og rækta hið góða með sér.
Þetta, sagði KK. væri inntakið í hugmundinni að baki „Fundar fólksins" sem efnt er til í Norræna húsinu fram á helgina. 
Mín tilfinning var sú að enginn hefði getað orðað þetta betur en KK gerði í góða veðrinu við Norræna húsið í dag. Hann brást ekki fremur en fyrri daginn!  
Okkur var sagt að upphaf þessarar hugmyndar mætti rekja aftur til ársins 1968 þegar þáverandi menntamálaráðherra Svíþjóðar, Olov Palme, talaði á svipuðum nótum og KK aftan á vörubílspalli á ekkert ýkja fjölmennri samkomu í Svíþjóð. Síðan hefði hugmyndin sótt í sig veðrið og væru þessir samræðudagar í Norræna húsinu haldnir á sama tíma og efnt er til svipaðara viðburða annars staðar á Norðurlöndum.
Ég hvet fólk til að kynna sér dagskrána sem þarna er boðið uppá en hana er að finna á heimasíðu Norræna hússins: http://nordichouse.is/is/   
Hér er svo slóð á viðburði sem tengjast Vinstri grænum sérstaklega: https://www.facebook.com/events/484214751731728/