Fara í efni

KJÓSUM AFTUR, AFTUR OG AFTUR

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.01.17.
Mér er minnisstæð þingræða helstu forystukonu Pírata við eldhúsdagsumræður síðastliðið vor. Hún var að lýsa af mikilli innlifun fæðingu „Nýja Íslands".  Eftir því sem leið á fæðingarhríðarnar varð forseti Alþingis, sem stýrði fundi, sífellt blóðminni ofan herða og skrifstofustjóri Alþingis að sama skapi fölur sem nár. Það var þegar hin verðandi móðir lýsti því yfir að hún ætlaði sér það hlutverk að stýra þinginu á komandi kjörtímabili.

Hvað um það, svo var kosið og allir biðu spenntir eftir því að sjá „Nýja Ísland" verða til, litla nýfædda krógann sem svo miklar vonir voru bundnar við.

En viti menn, barnið var bara ósköp venjulegt og hefðbundið barn, hrein eftirmynd foreldra sinna. Vandséð úr hvaða ætt svipurinn var sterkastur, sitthvað sem minnti á Eimskip og Sjóvá, fjármálafyrirtækin voru þarna líka í vangasvipnum og fluggeirinn einnig. Svo var áberandi svipur frá SÁ og iðnrekendum. Svona eru genin. Þau skila sér alltaf í vögguna.

En bíðum við. Þetta getur ekki staðist. Því ekki var það SA sem gat krógann og ekki heitir móðirin Sjóvá.

Nei, þetta eru fósturforeldrarnir, sem ætla að taka „Nýja Ísland" að sér en eiga að öðru leyti ekkert í því. Og mig grunar að hið eiginlega foreldri, íslenska þjóðin, hafi í reynd engan áhuga á fósturheimili í umsjá framangreindra aðila.

Alla vega var margt sem við nú vitum, sem ekki var vitað fyrir Alþingiskosningarnar í októberlok og enn fleira er ljóst sem áður var óljóst. Vissu kjósendur Bjartrar framtíðar t.d. hvers kyns framtíð það var sem sá flokkur sá fyrir sér að öðru leyti en að hún væri björt?

Trúðu kjósendur Viðreisnar því ef til vill að Viðreisn væri hófsamur miðjuflokkur sem gæti virkað sem mótvægi við hvers kyns öfgar, til dæmis öfgafulla markaðshyggju?

Trúðu kjósendur Pírata að róttæknin þar á bæ næði lengra en til þess eins að hafa fundi opna og allt gagnsætt?

Þannig mætti áfram telja og spyrja áleitinna spurninga um VG og Samfyllkingu einnig. Þeir flokkar eiga það þó sammerkt með Sjálfstæðisflokki og Framsókn að þeir hafa sýnt sitt andlit í nýlegum ríkisstjórnum; með örðum orðum, kynnt sig með verkum sínum.

Höfundur þessa pistils talaði ákaft gegn haustkosningum. Vildi meiri festu en svo að forsvarsmenn á Alþingi gætu vélað um og hringlað með lengd kjörtímabila.

En nú skal boðuð ný sýn. Það er nefnilega rétt sem sagt er, að við erum að ganga í gegnum tímabil breytinga og pólitískrar gerjunar. Sú gerjun verður að eiga sér stað í alvöru samtali milli þings og þjóðar þar sem allir komi til dyranna eins og þeir raunverulega eru klæddir. Sá klæðaburður hefur smám saman verið að koma í ljós í því pólitíska tilhugalífi sem okkur hefur birst undanfarnar vikur.

Þess vegna yrði þjóðin betur upplýst nú, gengi hún að nýju að kjörborðinu. Reynist niðurstaðan eins tormelt og sú sem nú er á borðum, verður einfaldlega að kjósa enn á ný og síðan aftur og aftur. Þjóðin á ekki að vera stikkfrí frekar en pólitíkusarnir. Vandræðagangurinn í Alþingishúsinu er nefnilega tilkominn af hennar völdum - þjóðarinnar. Það var hún sem kaus!

Þjóðin hefur það hins vegar sér til málsbóta að hún kann að hafa verið blekkt með fagurgala og innplöntuðum ranghugmyndum. Þær myndir þarf nú að rétta af með endurteknum kosningum.