Fara í efni

KJÖRBÚÐARKONAN: HEIMSPEKILEG HROLLVEKJA

Ég var að ljúka lestri bókarinnar Kjörbúðarkonan. Höfundur er japanskur rithöfundur, Sayaka Murata, og þýðandi á íslensku er Elísa Björg Þorsteinsdóttir. Allt er þarna upp á tíu í þessari örstuttu bók í bókaröð Angústúru-útfgáfunnar.

Já, stutt er bókin en höfundur þurfti heldur ekkert á því að halda að hafa hana lengri til að skilja lesendur sína eftir í heilabrotum eins og mig grunar að hafi verið ætlunin.
Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands, segir okkur í athyglisverðum eftirmála að þetta eigi við um fleiri bækur Murata, þær hafi opnað nýjar víddir og fengið „jafnt gagnrýnendur sem lesendur til að margbrjóta heilann.“ Kristín segir að þetta sé beinlínis yfirvegað markmið Murata og vitnar í hennar eigin orð um samverkan höfundar og lesenda í skáldsögum hennar:

„Þeir sem lesa skáldsögurnar ljúka við þær í huganum.“

Þetta voru mér kærkomin skilaboð og ættu að gefa okkur öllum kjark til að spekúlera, nánast komin með skáldaleyfi frá höfundi.

Og þá fyrst, hvers vegna kalla þetta heimspekilega hrollvekju? Ég hugleiddi reyndar hvort betur færi á því að kalla bókina mannfræðilega hrollvekju, því hún fjallar um atferli mnneskjunnar og hegðunarmynstur í mannlegu samfélagi á hrollvekjand hátt. Og ef sú lýsing er rétt sem við fáum í bókinni á samfélagi mannfólksins þar sem staðlar og aðlögun að þeim er alls ráðandi og allt frávik tilefni til útskúfunar – og nákvæmlega þannig hafi þetta alltaf verið, allt frá steinöld eins og ein persónan í bókinni uppástendur, þá er þetta eins konar úttekt á óaðskiljanlegum farangri okkar í gegnum mannkynssöguna; lýsing á homo sapiens, nánast fræðileg niðurstaða, svona séum við - því miður.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að biðja um örlítið meira svigrúm fyrir frelsi hugans – og með því er heimspekin komin í stað mannfræðinnar.

Eftir stendur að Kjörbúðarkonan er hrollvekja og reyndar einnig spennusaga. Frá því að við kynnumst Furukura, höfðusögupersónu bókarinnar, í barnæsku hennar, þá vitum við að hún er til alls vís. Það gerir sögu hennar spennuþrungna, nokkuð sem blundar í huga lesandans bókina á enda. Það má búast við öllu. Meira að segja einhverju svakalegu.
Karaktereinkennin koma fram á fyrstu síðunum þegar börnin í leikskólanum syrgja lítinn bláan stofufugl úr búri sem snúinn hafði verið úr hálsliðnum. Á endanum er hann grafinn í mikilli sorg en söguhetjan okkar spyr hins vegar hvort ekki sé rétt að hafa hann í soðið. Pabba hennar þyki fuglakjöt gott. Og eflaust var það fullkomlega rökrétt hjá leikskólabarninu að ætla að þennan fugl mætti borða eins og alla dauðu fuglana sem flest fólk legði sér til munns án þess að tilefni þætti vera til að syrgja þá sérstaklega.

Og það voru fleiri mótsagnir en sú augljósa að syrgjendur litla dána fuglsins hámuðu nær daglega í sig fuglakjöt. Í loftinu lá að þeir vildu einnig vernda lífríkið og bera virðingu fyrir því. En þrátt fyrir það sá enginn athugavert við að slitin væru upp blóm og „blómalíkin“ síðan lögð á leiði dauða stofufuglsins.

Allt þetta sá kjörbúðarkonan tilvonandi eða var það bara þannig að hún sá ekki hinar viðkvæmu og fallegu hugarvíddir sem þrátt fyrir allt eru til staðar í mannlegu samfélagi og mættu meira að segja vera miklu fyrirferðarmeiri? Er það ef til vill þetta sem við köllum tilfinningakulda – nokkuð sem við flest viljum helst varast?
Staðreyndin er þó sú að lesandinn heldur með hinni tilfinningasnauðu Furukura í viðureign hennar við skinhelgina sem okkur er opinberuð í óvægnum og illgjörnum heimi.    

Í Kjörbúðarkonunni er að finna frábærar mannlýsingar, sumar skemmtilegar aðrar dapurlegar en allar eru þær óvægnar.

Mér fannst athyglisvert að sjá haft eftir Sayaka Murata, höfundi bókarinnar, að hún hafi ekki verið búin að ákveða hvernig sögunni ætti að lykta fyrr en nánast var komið að því að setja punktinn fyrir aftan i-ið.

Í mínum huga þurfti varla að ljúka þessari sögu – enda lesendur allir komnir með skáldaleyfi til að ljúka henni á sinn hátt. Fyrir mitt leyti er er ég alls ekki búinn að ljúka henni þótt ég hafi lesið hana til síðasta stafs. Kjörbúðarkonan á eflaust eftir að velkjast í huga mínum lengi enn.

Mín innsýn í japanskar bókmenntir nær ekki ýkja langt. En nýlega las ég aðra bók Angústúru-útgáfunnar eftir japanskan höfund, Sendiboðann eftir Yoko Tawada. Mér finnst þessar tvær bækur vera skyldar og báðar til umhugsunar og vel það - til alvarlegra heilabrota – í heimi sem gerist sífellt kröfuharðari á hendur hverjum og einum að hlíta miðstýrðri forskrift um rétt og rangt, gott og slæmt.

Eitt er víst að hóphyggjan lætur ekki að sér hæða og líka er það rétt að hún þolir lítil frávik. Og ekki þarf að horfa lengi út fyrir okkar eigin litlu tilveru til að sjá hana að verki á alþjóðavísu. Það er svo sannarlega tilefni til heilabrota.
Það er þessi hegðun sem mér þykir vera hrollvekjan í boðskap Kjörbúðarkonunnar.

Umsögn um Sendiboðann sem vísað er til að framan: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sendibodi-angusturu