Kirkjan getur brillerað
Ekki er kirkjunni alltaf lagið að tala sig inn í hjörtu þjóðarinnar – eða inn í heilabú hennar. Vissulega eiga prestar það til að vekja fólk til umhugsunar svo um munar. Það gerði séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum í Kjós í messu sem útvarpað var sl. sunnudag. Mín skoðun er sú, að hann hafi brillerað. Mér segir hugur um að séra Gunnar hafi jafnt náð eyrum þeirra sem trúa án efasemda sem hinna sem alls ekki eru trúaðir eða beggja blands, "trúa að nokkru". Í predikun sinni sagði séra Gunnar, að sá Guð sem maðurinn teldi sig hafa fullkomna þekkingu á og geta skýrt og skilgreint, væri ekki hinn sanni Guð. "Um Guð getur maðurinn aðeins tjáð sig með tungutaki tákna og myndmáls." Í þessum heimi birtist Guð í táknum vonarinnar. Um þessi tákn segir séra Gunnar: " Þau snúast um mannleg samskipti í daglegu lífi: í umhyggju, í sanngirni, í iðrun. Í trúfesti, í fyrirgefningu, í sáttargjörð. Tákn vonarinnar verða sýnileg þegar við fórnum einhverju fyrir þá sem líða, þegar við stöndum við hlið hinna fyrirlitnu, þegar við nálgumst ógæfumanninn með mildum huga. Tákn vonarinnar skynjum við þar sem maðurinn sýnir ábyrgð í samskiptum sínum við lífríkið, í nýtingu auðlinda, í viðskiptum. Þegar við slökkvum hefndarþorstann, eyðum fordómum, verjum lítilmagnann."
Séra Gunnar varð góðfúslega við þeirri beiðni minni að fá að birta predikun hans hér á heimsíðunni og birtist hún í flokknum frjálsir pennar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/gunnar-kristjansson-talar-til-okkar-ur-kirkju-sinni