Fara í efni

Kim Il Ásgrímsson

Mörgum brá í brún þegar þeir óku Suðurlandsbrautina fyrir fáeinum dögum. Hús eitt ofarlega við brautina hafði nánast verið betrekt með risastórum myndum af Halldóri Ásgrímssyni formanni Framsóknarflokksins og Jónínu Bjartmarz  frambjóðanda flokksins hér í Reykjavík. Ég sá fyrst þessar myndir kvöldið sem Sjónvarpið sýndi styttuna af Saddam Hussein fellda af stalli í Bagdad. Ef til vill voru hughrifin sterkari fyrir bragðið. Ekki veit ég hvaðan Framsóknarflokkurinn fékk þá hugmynd að flenna forystumenn sína yfir heila húsveggi. Helst kemur mér Norður-Kórea í hug en þar í landi eru menn mjög útfarnir í að koma foringjamyndum af þessari stærðargráðu fyrir á almannafæri.

Sá hængur var á þarna við Suðurlandsbrautina að nokkuð vindasamt var fyrstu dagana eftir að þau Halldór og Jónína voru hengd upp þannig að þau fuku eitthvað til og um skeið var Halldór aðeins hálfur á húsveggnum. Ekki hef ég þekkingu á veðurfari í Norður-Kóreu en þó kæmi mér ekki á óvart að þar gæti verið óveðrasamt. Sennilega væri ráð að Halldór og félagar horfðu til Norður-Kóreumanna um ráðleggingar varðandi pólitísk leiktjöld og hvernig bæri að bregðast við þegar á móti blési. Mér er sagt að Norður-Kóreumenn bregðist helst við með því að stækka myndirnar. En það kallar líka á góðar festingar.