Fara í efni

Kárahnjúkaflokkarnir á móti

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sem veittu stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar brautargengi og heimiluðu Kárahnjúkavirkjun gengu enn lengra en flesta hefði grunað við afgreiðslu málsins á Alþingi í gær. Þessir flokkar höfnuðu einnig tillögu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta stórmál í tengslum við alþingiskosningarnar eftir tvo mánuði. Þessi tillaga er of seint fram komin sagði einhver þingmanna þessara Kárhnjúkaflokka sér til málsbóta. Þegar málin eru rifjuð upp rekur mig þó minni til að viðkomandi þingmaður var einnig á móti tillögu sem VG setti fram á síðasta ári um þjóðaratkvæði um Kárahnjúkavirkjun. Annars er þetta mál allt með endemum. Við afgreiðslu málsins er mörgum veigamiklum spurningum ósvarað. Þannig gat iðnarðarráðherra engu svarað um mengunarþáttinn við þriðju umræðu málsins. Þegar samið var við Norsk Hydro ætluðu menn að álbræðslan hefði framleiðslugetu upp á 420 þúsund tonn. Síðan kom Alcoa til sögunnar með 25% minna álver upp á 320 þúsund tonn. Minna álver þyrfti ekki nýtt umhverfismat var sagt. Þar að auki átti ekki að vera rafskautaverksmiðja sem er mjög mengandi. Menn uggðu ekki að sér. Þetta virtist sannfærandi. En eitt gleymdist og það var hve ístöðulitlir samningamenn okkar eru. Þeir sýndu slíkt andvaraleysi gagnvart samningamönnum Alcoa að þeir hafa lagt til að brennisteinsdíoxíðlosun verði heimiluð allt að 12 kg á tonn eða tólffalt það magn, sem Alþjóðabankinn telur að hámarki eðlilegt við rekstur nútíma álvera og tuttugu sinnum meira en Norsk Hydro áformaði í fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði. 

Þetta hafa mengunarsérfræðingar fullyrt og þess vegna var iðnaðarráðherra spurður um þetta á Alþingi. Ráðherrann kvaðst ekki hafa kynnt sér þetta mál. Látum það vera þótt ráðherrar og þingmenn séu ekki sérfræðingar í efnafræði eða mengunarefnum.

Þá kröfu verður hinsvegar að gera til iðnaðarráðherra, að hann fylgist með hvaða tillögur séu uppi varðandi jafn alvarleg mál og hér er um að ræða, þess þá heldur þegar stofnun sem undir hann heyrir leggur til mengunarstaðla sem er algerlega á skjön við það sem áður hefur verið gert ráð fyrir. Öllum sem falið hefur verið að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar ber að sýna fyllstu árvekni þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar. Þessa vakt stendur hvorki ríkisstjórn né einstakir ráðherrar. Ráðherrar og ríkisstjórn vita sem er að treysta má á sauðtryggan meirihlutann á þingi. Hann þarf engin rök. Hann fer einfaldlega að fyrirskipunum. Stjórnarmeirihlutinn myndi samþykkja hvað sem er með bundið fyrir augun. Aðeins einu var stjórnarmeirihlutinn á móti við atkvæðagreiðsluna í gær og fékk þar liðstyrk Samfylkingarinnar. Kárahnjúkaflokkarnir þrír – Framsóknarflokkur, Sjálsfæðisflokkur og Samfylking - voru á móti því að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um þetta mikla deilumál. Kárahnjúkaflokkarnir voru á móti þjóðaratkvæðagreiðslu.