KANKAST Á MEÐAN HEILBRIÐGÐISKERFINU BLÆÐIR ÚT
09.12.2007
Agnes Bragadóttir er sem kunnugt er fréttaskýrandi á Morgunblaðinu. Hún er ekki fréttaskýrandi í þeim skilningi að hún sé bara áhorfandi og skilgreinandi. Agnes Bragadóttir er það sem kallað er að vera „gerandi“ í pólitískum fréttaskýringum. Hún gefur fólki einkunnir. Segir hvernig einstaklingar og flokkar standi sig samkvæmt mælikvarða stjórnmáladeildar Morgunblaðsins.
Í Silfri Egils um helgina vakti hún athygli fyrir að hafa allt á hornum sér gagnvart Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Svo var að skilja að helsti vandi íslenskra stjórnmála væri hve Vinstrihreyfingunni grænu framboði væru mislagðar hendur. Öðru máli gegndi um ríkisstjórnina. Þar væri alveg sérstaklega gott andrúmsloft enda hefði tekist náið samband með formönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Agnesi þótti það krúttlegt að sjá þau hvíslast á Geir og Ingibjörgu Sólrúnu á Morgunblaðsmynd í vikunni sem leið. Það væri eitthvað annað en að hlusta á Vinstri græn. Þáttastjórnandi var heldur betur á sama máli. Greip boltann á lofti, fannst Jón Bjarmason beita sér um of í ræðustól Alþingis. Aldrei hægt að slökkva á talsmanni Vinstri grænna!
En eru Vinstri grænum mislagðar hendur og er fulltrúi okkar í fjárlaganefnd Alþingis, Jón Bjarnason, landsmönnum til óþurftar? Hver skyldi hafa átt frumkvæði að því að Ríkisendurskoðun hóf rannsókn á lögmæti samningsgerðar um vatnsréttindi í Þjórsá? Í vikunni kom á daginn sem kunnugt er að farið var þvert á lög, ef ekki Stjórnarskrá Íslands í samningum ríkisins við Landsvirkjun. Krafan um rannsókn var að sjálfsögðu sett fram af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Hverjir aðrir á Alþingi skyldu beita sér fyrir slíku?
Hverjum skyldi vera að þakka að kastljósum er nú beint að samningum Þróunarfélagsins ehf. um sölu á almannaeignum á Keflavíkurflugvelli – sennilega þvert á lög og reglur? Hér hafa glöggir fjölmiðlamenn – fyrst og fremst á DV – kveikt á perunni og haldið uppi góðri rannsóknarfréttamennsku en af hálfu þingmanna eru það þingmenn VG, með Atla Gíslason í broddi fylkingar, sem hafa beitt sér í málinu. Þingmenn VG hafa meira að segja leyft sér að tala nokkuð um þetta mál.
Hverjir skyldu hafa flutt breytingartillögur um aukið framlag til heilbrigðisstofnana landsins þegar sýnt var að þeim mun blæða út á komandi fjárlagaári ef ekki verður gerð breyting á fjárlögum? Það gerðu þingmenn VG með Jón Bjarnason í broddi fylkingar. Sá maður er nefnilega vakinn og sofinn að verja almannahag. Gæti það verið skýringin á hnjóðsyrðum í hans garð?
