Fara í efni

KALLAÐ EFTIR UMRÆÐU UM ALDURSTENGDAR LÍFEYRISGREIÐSLUR

Á stjórnarfundi BSRB sl. föstudag kom fram að ASÍ og SA hafi ákveðið að beina því til lífeyrissjóðanna að taka upp lífaldurstengdar lífeyrisgreiðslur. Á mannamáli þýðir það að verðgildi iðgjaldsins ráði hve mikill réttur hljótist af því. Ungur einstaklingur sem greiðir í lífeyrissjóð ávinni sér þannig meiri réttindi en gamall maður. Ástæðan sé sú að iðgjald unga mannsins sé lífeyrissjóðnum lengi til ráðstöfunar á vöxtum eða sem hlutabréf í fyrirtæki sem skili arði í langan tíma. Iðgjald gamla mannsins staldri hins vegar stutt við og þess vegna sé minna á því að græða. Þess vegna eigi gamli maðurinn að fá minni réttindi fyrir sitt iðgjald en ungi maðurinn.  Þetta þýðir að langskólagengið fólk fær rýrari réttindi en þeir sem koma snemma inn á vinnumarkað og konur sem eru lengi heima vegna barneigna á fyrri hluta starfsævinnar og koma þar af leiðandi seint inn á  launamarkað, fá rýrari réttindi en eiginmennirnir sem fara snemma að greiða iðgjöld inn í lífeyrissjóði. Þarf ekki að ræða þetta betur áður en ákvörðun er tekin? Þetta er ekki mál sem á að leiða til lykta í lokuðum klúbbi lífeyrissjóðsstjórna. Þetta kallar á víðtæka samfélagsumræðu. Hér með er kallað eftir henni.