Fara í efni

KALLAÐ EFTIR FRUMKVÆÐI NORÐURLANDARÁÐS

Birtist í Morgunblaðinu 25.02.05. og í vikunni á Norðurlöndunum öllum í nafni NTR , sbr. að neðan.
Nýverið lauk deilu milli samtaka sænskra byggingaverkamanna (Byggnads­arbetar­förbundet) og lettnesks byggingafyrirtækis um kaup og kjör lettneskra bygginga­verkamanna sem störfuðu við byggingu skóla í Vaxholm í nágrenni Stokkhólms. Deilan kom upp í Svíþjóð en það hefði eins getað verið í Danmörku, Noregi eða Finnlandi. Stéttarfélagið setti verkbann á byggingarframkvæmdirnar þar sem lettneska fyrirtækið neitaði að undirrita sænskan kjarasamning. Eftir að hafa gert upp við viðkomandi sveitarfélag hefur lettneska fyrirtækið hætt störfum við byggingu skólans.
Þessi vinnudeila er dæmi um hvað getur gerst þegar frelsi fyrirtækja rekst á við þá meginreglu að innlendir samningar um kaup og kjör starfsmanna þess skuli gilda.  En deilan snýst ekki einungis um það.  Hún snertir einnig kjarnann í hinu norræna velferðarkerfi, sem byggir á velferð fyrir alla, sterkri stöðu stéttarfélaga og traustum kjarasamningum.
Sem talsmenn og fulltrúar samtals 400.000  starfsmanna í almannaþjónustu, teljum við ríka þörf fyrir að standa vörð um norræna kerfið á vettvangi ESB/EES.  Ekki til þess að vinna baráttuna um hvaða velferðarkerfi á að vera ráðandi heldur til þess að tryggja að fleiri aðferðir geti verið til og þróast samhliða í evrópsku samstarfi.
Í mörg ár hafa Norðurlöndin unnið saman í Norðurlandaráði, bæði tvíhliða og á alþjóðlegum vettvangi.  Á undanförnum árum hefur sú samvinna ekki farið hátt.  Það virðist  umhugsunarefni, einmitt vegna þess að við á Norðurlöndunum eigum svo margt sameiginlegt, bæði sögulega og menningarlega, og líka vegna þess að við höfum valið sömu aðferð til að byggja upp velferðarkerfi sem við köllum norræna kerfið.
Nú virðist sem hið evrópska samstarf hafi forgang á meðan norræna samstarfið kemur haltrandi á eftir.  Þetta finnst okkur vera óæskileg breyting, sérstaklega í ljósi þeirra mörgu krefjandi verkefna sem hið norræna kerfi stendur frammi fyrir varðandi nútímavæðingu opinbera geirans.
Hér er þörf fyrir Norðurlandaráð sem sameiningarafl og leiðandi aðila í því starfi að styrkja og þróa áfram norrænt kerfi með velferð fyrir alla í fyrirrúmi og öfluga verkalýðshreyfingu. Það er jarðvegur fyrir jákvæða þróun á Norðurlöndunum. Við vitum að viðhorf almennings til norræna velferðarkerfisins er jákvætt. Stjórnmálamennirnir hafa líka umboð til að bæta og þróa kerfið áfram. 
Norræna velferðarkerfið einkennist af  þróuðu lýðræði með samábyrgð og velferðarþjónustu sem rekin er af almannavaldinu.  Vinnumarkaðurinn einkennist af   öflugri verkalýðshreyfingu og atvinnurekendasamtökum og kjarasamningum sem ná til alls vinnumarkaðarins.
Víða í Evrópu sjáum við nú tilhneigingu til að lækka fyrirtækjaskatta og tekjuskatta sem minnkar skatttekjur ríkissjóðs, á sama tíma og kostnaðurinn við velferðarþjónustuna hækkar.  Þetta getur leitt til mikils niðurskurðar og endurskipulagningar sem dregur úr velferðarþjónustunni og ýtir undir að farnar séu aðrar leiðir til að fjármagna þessa þjónustu, t.d. með aukinni gjaldtöku og að þeir, sem hafa efni á því, kaupa sér tryggingar.
Hvað varðar vandamál og ágreining á vinnumarkaðinum, þá er hefð fyrir því á Norðurlöndunum að leysa þau með umræðu og samvinnu í samningagerð milli aðila vinnumarkaðarins og við stjórnvöld. Annars staðar í Evrópu eru aðrar hefðir.  Í mörgum löndum er kjörum á vinnumarkaðinum stýrt með lagasetningu, t.d. hvað varðar lágmarkslaun.  Viðhorfið til uppbyggingar vinnumarkaðarins, vinnuverndarlöggjafarinnar, stöðu  stéttarfélaganna og möguleika einstaklingsins til að hafa áhrif á eigin atvinnuaðstæður er öðruvísi en hjá okkur.  Slíkt hið sama á við um réttinn til að stofna stéttarfélög, semja og gera bindandi kjarasamninga, og fylgja kröfum eftir með verkföllum ef ekki semst.  Í stuttu máli, hefðbundin barátta verkalýðsfélaga sem við á Norðurlöndunum lítum á sem sjálfsagðan hlut en er það ekki í þeim löndum sem nýverið hafa gengið í Evrópusambandið.
Vinnudeilan í Vaxholm sýnir greinilega þörfina á að vernda erlent vinnuafl sem landar okkar reyna að ráða upp á lakari kjör.  Þess vegna er það áríðandi að fyrirliggjandi tillaga að atvinnureglum ESB ábyrgist að erlent vinnuafl njóti verndar og sömu kjara og réttinda og heimamenn á vinnumarkaði í viðkomandi löndum.
Það er löng hefð fyrir alþjóðlegu samstarfi og samheldni hjá verkalýðshreyfingunni.  Hér sjáum við mikilvægt hlutverk fyrir Norðurlandaráð, sem getur unnið með okkur að uppbyggingu frjálsra og lýðræðislegra verkalýðsfélaga, vinnuveitendasambanda og lausna með þriðja aðila í öðrum löndum.  Það verður að vernda rétt launafólks til að skipuleggja samtök sín, til samningaviðræðna og að gera kjarasamninga.  Það á ekki síst við í nágrenni okkar, í Eystrasaltslöndunum.
Norðurlandaráð hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna hvað varðar baráttuna fyrir að mannréttindi í atvinnulífinu séu virt. Sáttmálar alþjóðavinnumála­stofnunarinnar (ILO) eru gott verkfæri til þess og þá ber að virða í öllum ríkjum og af öllum atvinnurekendum. Ekki bara í þeim löndum sem eru fjarri Norðurlöndunum heldur líka í sumum af hinum nýju aðildarlöndum ESB og öðrum evrópskum löndum.
Það öryggi og þau kjör sem einkenna velferðarsamfélag dagsins í dag er árangur af verkalýðs- og stéttabaráttu margra kynslóða.  Það að vernda og þróa kerfið okkar og hinn norræna atvinnumarkað innan ramma Evrópusamstarfsins, er mikil áskorun.   Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að hafa ígrundaða áætlun og sameiginlega aðkomu að því máli.  Sem fulltrúar starfsmanna í almanna þjónustu skorum við hér með á Norðurlandaráð að taka þátt í starfinu. 

Grein þessi birtist samtímis á Norðurlöndunum öllum nafin NTR. Aðild að Nordisk Tjenestemandsråd – NTR eiga 12 samtök launafólks í Noregi, Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum. Í samtökunum tólf eru einkum starfsmenn sveitarfélaga.

Eva Nordmark, SKTF Svíþjóð, og formaður NTR

Ögmundur Jónasson, Sjöfn Ingólfsdóttir, BSRB Íslandi,

Markku Jalonen, Jyty,  Keijo Houhala, KTK, Finnlandi,

Gunnleiv Dalsgård, Starvsmannafelagid, Færeyjum,

Gunn Olander, KFO,  KFO, Noregi,

Bodil Otto, HK/kommunal, Flemming Jacobsen, Sölleröd Kommunalförening,

Sören Johnsen, Gentofte Kommunalförening, Danmörku

Karin Liden, Ledarna, Svíþjóð.