Fara í efni

JULIAN ASSANGE OG MANNRÉTTINDI Á DAGSKRÁ Í BRUSSEL

Myndin er tekin fyrir framan þinghúsið í Brussel

Ég er búinn að eiga áhugaverða daga í Brussel, höfuðborg Belgíu, frá því á sunnudag.
Þann dag var ég á fundi stjórnmálamanna, lögmanna og annarra áhugasamra um mannréttindi og frjálsa fréttamennsku og frlesi almennt til orðs og æðis. Í brennidepli umræðunnar var Wikileaks fréttaveitan og hlutskipti fyrrum ritstjóra hennar og stofnanda, Julian Assange en hann hefur setið í fangelsi í London í meira en fjögur ár án þess að fyrir því væru lagalegar forsendur enda málið pólitískt í eðli sínu.

Umræðufundinum stýrði ásamt mér dr.  Deepa Govindarajan Driver, sem er í forsvari fyrir sósíalíska lögfræðinga í Bretlandi en hún hefur einnig verið talsmaður þeirra og tengdra starfsstétta við samningaborð í kjaraviðræðum. Deepa hefur fylgst með málaferlum Julian Assange og hefur haft það verkefni fyrir hönd vinstri flokkana á þingi Evrópuráðsins að gefa þeim skipulega upplýsingar um framvindu mála.

Í þessu samhengi var Deepa Govindarajan Driver mætt til Brussel en að skipulagi fundar okkar þar stóð öflugur hópur, auk okkar Deepu. Þar var John Y. Jones, Norðmaður, orkubolti mikill, og fullyrði ég að fáir menn hafi staðið fyrir fleiri viðburðum sem hafa hreyft við samfélaginu en hann hefur gert. Að skipulagi fundarins kom einnig Arne Ruth sem um langt árabil var ritstjóri sænska stórblaðsins Dagens Nyheter, maður sem hefur mikið til mála að leggja enda talar hann af langri reynslu.

Á þessum fundi í Brussel á sunnudag  voru fulltrúar víða að úr heiminum og óhætt að segja að þar hafi verið mikið mannval: blaðamenn, þingmenn, forsvarsfólk úr verkalýðhreyfinu og fleiri. Fundurinn var mjög gefandi og hvetjandi. 

Þá var vekjandi að hitta á ný – ekki var þetta mín fyrsta heimsókn til Brussel í svipuðum erindagjörðum – fólk sem í viku hverri kemur saman í miðborg Brussel og dreifir upplýsingum um Wikileaks og hvetur vegfarendur til að skrifa undir áskorun um að Julian Assange verði látinn laus úr fangelsi í Londum og kröfu Bandaríkjastjórnar um framsal svo refsa megi honum fyrir að miðla fréttum af stríðsglæpum Bandaríkjanna og annarra NATÓ ríkja .


Á mánudag vorum við síðan sum hver mætt í miðborg Brussel þar sem við slógumst í hóp fólks sem þar var að dreifa upplýsingum og taka vegfarendur tali.
Á þriðjudag var enn fundur sem ég sótti . Dágóður hópur undir forystu Deepu Govindarajan Driver (til hægri á myndinni) og Marie-France Deprez (til vinstri á myndinni) átti  þá fund í belgíska þinginu með þingmönnum þar í þeim erindagjörðum að fá fylgi við málstað okkar (á milli kvennanna tveggja er dr. Samuel Cogolati, belgískur þingmaður sem tók á móti hópnum). Marie-France hefur verið í forsvari fyrir hóp í Brussel sem hefur haldið þessum baráttufána á lofti og voru allnokkrir úr þeim hópi á fundinum.  Á meðal þeirra sem tóku til máls á þessum fundi í þinginu var Craig Murrey, fyrrum sendiherra Breta í Uzbekistan (en hann var rekinn úr því starfi eftir að hann upplýsti um pyntingarbúðir sem starfræktar voru í Uzbekistan á vegum BNA) og Lisa Longstaff frá samtökunum Women against rape í London. Við John Jones lögðum einnig orð í belg á þessum fundi í belgíska þinginu auk fólks frá samtökum heimamanna. Á fundinum voru allnokkrir belgískir þingmenn, bæði hægri menn og vinstri menn og tóku þeir málflutningi okkar vel. Mér var tjáð að í þingsalnum hafi einnig mátt sjá sérfræðing í fangelsismálum og þekktan lögmann sem sérhæfði sig í mannréttindamálum.  

Dropinn holar steininn – um það er ég sannfærður.

Á myndunum hér að má sjá m.a. Chris Hedges, bandarískan blaðamann, prestlærðan eldhuga og hugsjónamann, heilsa "aktívistum" í miðborg Brussel, fyrrnefnda Lisu Longstaff í belgíska þinginu og neðsta myndin gæti heitið, ungur nemur, gamall temur, sá ungi er 75 ára unglingur með 96 ára konu frá Amazon svæðum Perú sem lætur háan aldur ekki halda aftur af sér.