Fara í efni

JÓNATANS MINNST

Í byrjun vikunnar fór fram útför Jónatans Jóhanns Stefánssonar vélstjóra. Kistan var rauð til að undirstrika pólitík Jónatans og eftirspilið var vélarhljóð úr fiskibát til að minna á ástríðu gamla vélstjórans. Allt sérstakt eins og Jónatan sjálfur og allt niður í smæstu smáatriði skipulagt af honum sjálfum. Eftirfarandi eru minningarorð mín um Jónatan sem birtust í Morgunblaðinu í dag:

Fáir held ég að hafi fagnað stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs árið 1999 jafn innilega og fölskvalaust og Jónatan Stefánsson. Margoft hafði hann á orði hvílík frelsun það væri að þurfa ekki að ganga með sínum gamla flokki, Alþýðubandalaginu, inn í eitthvert kratasamsull. Það hefði aldrei verið hægt að treysta krötum og yrði aldrei hægt, sagði Jónatan gjarnan á þessum árum og rumdi í honum. Svo dró hann djúpt inn andann og andvarpaði af feginleik.
Ekki verður sagt um Jónatan Stefánsson að hann hafi verið ljósmóðurlega vaxinn. En í endurminningunni minnir hann á einhvers konar guðmóður þar sem við sátum þrír í eldhúsi Steingríms J. Sigfússonar að loknum kvöldfundi sem teygt hafði sig inn í nóttina í aðdraganda þess að VG var stofnað. Þar var boðið upp á svartfuglsegg og sitthvað fleira.

Annars var Jónatan umtalsgóður um fólk og ekki minnist ég þess að heyra hann hallmæla nokkrum manni ekki einu sinni krötum og ekki heldur hægri mönnum þótt þeir fengju náttúrlega falleinkunn þegar þeir voru komnir saman í hóp. Um íhaldið þurfti þannig ekki að hafa mörg orð. Það var einfaldlega óferjandi.
Það var þó úr þeirri átt sem hans helstu hjálparhellur komu síðustu árin. Þeir Ásmundur Friðriksson og Birgir Þórarinsson verða þannig seint kenndir við sósíalisma Jónatans en hjálpsemi þessara manna og fleiri fann ég að hann kunni að meta að verðleikum.

Við stofnun VG og í aðdraganda kosninga þá gætti Jónatan vel að því að yfirbragð baráttunnar væri allt með ágætum því ekki mætti blettur falla á flokkinn sem gæti skaðað orðspor hans. Ég minnist þess að einhverju sinni kom maður vel við skál á kosningaskrifstofuna í Reykjavík. Jónatan fór strax að iða í sæti sínu og bauð því næst gestinum akstur í leigubíl sínum hvert sem hann vildi, gjaldfrítt að sjálfsögðu. Það var þegið og brosti þá Jónatan kankvíslega til okkar félaga sinna, vitandi að hann hafði lagt sitt af mörkum þann daginn. 

Ekki var það þó svo að skilja að stjórnmálaflokkur væri Jónatan allt. Stefnan gerði að sjálfsögðu útslagið hjá þessum öndvigis pólitíska félaga. Þannig sóttum við, svo dæmi sé tekið, saman fundi nú í seinni tíð þar sem sú orkustefna  sem orkupakkar Evrópusambandsins hvíldu á var á dagskrá á gagnrýninn hátt þvert á nýja línu flokksins.

Jónatan var fróður um margt og áhugamaður um allt sem laut að sjávarútvegi og bátaútgerð á Suðurnesjum sérstaklega. Færði hann mér bækur og rit um þessi efni og hnippti í mig ef það var eitthvað sem var til umfjöllunar í fjölmiðlum sem hann vildi sérstaklega vekja athyli mína á.

Yfir jólahátíðina skiptumst við Jónatan jafnan á kveðjum. Það er nú liðin tíð. Hitt er ekki liðið að ég minnist þessa góða félaga og vinar með eftirsjá og væntumþykju.