Fara í efni

Jón Torfason skrifar: Ég sakna Þjóðviljans

Fyrir nokkrum árum flutti eitt af ungskáldum Íslendinga og þekktur pistlahöfundur erindi í útvarpinu og sagði þá meðal annars: “Ég sakna Þjóðviljans ekki,” ef rétt er munað. Í framhaldinu ræddi hann svo hvað Þjóðviljinn hefði verið ómerkilegt blað og fann honum margt til foráttu, þó einna helst það að hann hefði ferið flokksblað og þjónað Alþýðubandalaginu. Fáum árum eftir að Þjóðviljinn lagði upp laupana fóru Alþýðublaðið, blað Alþýðuflokksins, og Tíminn, blað Framsóknarflokksins, sömu leiðina. Morgunblaðið, blað Sjálfstæðisflokksins, tórði hins vegar og gerðist meira að segja að sumu leyti á yfirborðinu frjálslyndara en áður, en er að sjálfsögðu eftir sem áður blað íhaldsaflanna. Þróunin hefur því orðið sú að nú eru gefin út tvö flokksdagblöð, Morgunblaðið og DV, og svonefnt Fréttablað sem mun í eigu íhaldsaflanna, en er lítið annað en fyrirsagnir. 

Dagblaðaflóran hefur því á undanförnum áratug rýrnað og er nú næsta einsleit. Nú er ekki gefið út neitt vinstri blað, ekkert miðjublað en tvö hægriblöð. Stundum er talað um framfarir þar sem betur færi á að tala um þróun. Með samruna peningaaflanna og auknum mætti þeirra hefur orðið sú þróun að blöðum hefur fækkað og þau orðið einsleitari. Þetta er breyting en langt í frá framfarir. Þvert á móti mikil afturför.

Skáld eru höfundar allrar rýni, segir Snorri Sturluson í Eddu sinni, bestu kennslubók um skáldskap sem hefur verið samin á íslensku. Hvað á hann við með þessum orðum? Jú, að skáld eigi að rýna í hlutina, kanna málið, og ef vel vill sjá fram í tímann. Þeim tekst það raunar stundum. Umrætt ungskáld var hins vegar gjörsamlega blint þegar hann mælti orðin um að hann saknaði Þjóðviljans ekki. Ég sakna hans mjög og raunar Alþýðublaðsins og Tímans líka. Við brotthvarf þessara blaða er dagblaðaflóran orðin snöggtum fátæklegri. Hægri pressan er ráðandi og heldur uppi jöfnum og hörðum hægri áróðri. Erlendar og innlendar fréttir eru algjörlega bundnar við bandaríska og breska heimsmynd og því haldið fram leynt og ljóst að sú mynd af heiminum sé hin eina rétta. Af innlendum vettvangi eru aldrei birtar fréttir sem koma peningaöflunum eða Sjálfstæðisflokknum illa, nema þegar einstaka sinnum er komið í algert óefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig traustatök á ljósvakamiðlunum, sjónvarpinu algerlega og bylgunni og ríkisútvarpinu að mestu leyti. Áður fyrr birtu hin blöðin fréttir, sem komu við hægri öflin og sömuleiðis greinar um atburði í útlöndum sem sýndu önnur viðhorf en hin þröngu engilsaxnesku sem hér ríkja. Við brotthvarf áðurnefndra blaða, og sérstaklega Þjóðviljans, hefur því orðið mikil afturför. Félagsleg viðhorf eiga sér formælendur fáa og það kvak, sem kemst í gegn í hægri pressunni, er afar máttvana og skiptir litlu.

Raunar hefur sú ánægjulega þróun orðið að margs konar netmiðlar hafa komið í staðinn, þannig að hægri pressan einangrar ekki algerlega skoðanamyndun í landinu. Margir eru farnir að fylgjast með fréttum frá útlöndum í gegnum netútgáfur blaða og hagsmunahópa og fá þar með miklu fjölbreyttari heimsmynd en birtist í hægri pressunni á Íslandi. Ekki að undra þótt íhaldinu þyki þörf á að koma á ritskoðun á netinu. Sá hópur, sem hefur aðgang að netmiðlum, er þó takmarkaður, þannig að þorri almennings er algjörlega háður skoðanamyndun íhaldsfjölmiðlanna.

Þjóðviljinn, þótt hann væri á stundum svo sem ekkert sérstakur, hafði einmitt miklu hlutverki að gegna að þessu leyti. Hann var vinstri sinnað blað, flokksblað alveg eins og Morgunblaðið og DV eru og þóttist ekki vera annað en flokksblað. Þjóðviljinn barðist fyrir félagslegum málefnum, birti fréttir frá athöfnum vinstri hreyfinga um allan heim og var málsvari verkafólks og hópa af öllu tagi sem áttu undir högg að sækja. Hann velti sér aldrei upp úr persónulegum vandamálum einstaklinga. Morgunblaðið hefur raunar aldrei gert það heldur og fær vissulega plús fyrir það, en hin skítablöðin stóran mínus. Við brotthvarf Þjóðviljans sérstaklega, en einnig Tímans og Alþýðublaðisins, hefur öll umræða um þjóðfélagsmál orðið einsleitari og hægri sinnaðri en áður. Það er svo sem ekki að undra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi heljartök á þjóðfélaginu.

Vesaldómur íslenskra fjölmiðla birtist líklega hvað skýrast síðustu daga í frásögnum af innrás Bandaríkjanna í Írak. Fréttatími eftir fréttatíma og dálkur eftir dálk er fullur af framgangi bandamannahersins, eins og það er orðað svo smekklega. Þessar fréttir eru klæðskerasaumaðar fyrir almenning í Bandaríkjunum og Bretlandi en skipta aðra engu máli og eru því um ekki neitt. Það er líka vitað að nokkur þúsund eða tugir þúsunda munu bíða bana í þessum aðgerðum, hundruð þúsunda hrekjast frá heimilum sínum og eignatjón almennings verður mikið, allt til að þjóna hagsmunum olíufurstanna í Bandaríkjunum. Ákafinn í íhaldspressunni er svo mikill að hjá sjónvarpinu er kölluð út aukavakt um helgar til að sjónvarpa auglýsingamyndum bandaríska hersins. 

 Á sama tíma hafa fasísk öfl nánast frítt spil vítt og breytt um jarðarkúluna, en enginn hefur áhuga á því. Fréttamenn eru að miklu leyti múlbundnir, vilja eðlilega ekki missa vinnuna, og þurfa því að fylgjast með þvættingnum frá áróðursstöðvum bandaríska hersins um framgang sinna manna. Enginn fjölmiðill hefur haft minnstu tilburði til annars konar fréttaflutnings, alls staðar sama loðmullan.

Það skáld, sem vitnað var í hér í upphafinu, hefur öðru hverju verið með pistla í útvarpinu, rætt um hitt og þetta stefnulítið, aðeins verið fyndinn. Hann kemur vissulega vel fyrir sig orði en boðskapurinn er enginn. Tilgangslítið rabb fram og til baka. Þannig er íslensk fjölmiðlun að miklu leyti í dag, harður hægri áróður annars vegar og hins vegar innihaldslítið rabb eða kaffistofuspjall um allt og ekkert.

Þess vegna sakna ég Þjóðviljans.

Jón Torfason