Fara í efni

JÓN ÁSGEIR OPNAR GLUGGANN

Á Morgunvakt RÚV hefur verið opnað á nýjung sem ég kann að meta. Það er umfjöllun hins ágæta fréttamanns Jóns Ásgeirs Sigurðssonar um skrif álitsgjafa í erlendum fjölmiðlum. Jón Ásgeir fjallar um leiðaraskrif erlendra stórblaða og kemur víða við. Eins og gefur að skilja er maður stundum sammála hinum erlendu álitsgjöfum og stundum ekki. En eitt má segja og það er að þessi umfjöllun gefur innsýn í alþjóðlega umræðu. Sú umræða á að sjálfssögðu snertifleti við umræðu og viðhorf hér á landi. Síðastliðinn föstudag fjallaði Jón Ásgeir um leiðaraskrif breska blaðsins Financial Times. Leiðarahöfundur var afar ánægður með þá viðleitni Evrópusambandsins að greiða götu markaðsviðskipta í fjármálalífinu. Sérstaklega ámælisverð væri sú árátta þýskra banka, að mati Financial Times, að lána smáfyrirtækjum á heimaslóðum!! Mér varð hugsað til Landsbankans og Búnaðarbankans – hinna sálugu ríkisbanka – sem stunduðu ámóta glæpi á Vestfjörðum og víðar. Þeir höfðu byggðasjónarmið og atvinnuástand að leiðarljósi – ekki bara græðgina í eigendum sínum. Hvílíkt ábyrgðarleysi – eða hvað?

Financial Times vonast greinilega til að Evrópusambandinu takist að innræta okkur þá afstöðu að hætta að hugsa um samfélag, hvort sem það er á Vestfjörðum eða annars staðar – og hugsa bara um hagnað; græðgi eigenda banka skuli vísa veginn.

Viljum við þetta? Ekki ég.

En svona hugsaði Financial Times sl. föstudag: "Sameinaðir markaðir Evrópubandalagsins gagnast Evrópumönnum afar vel segir breska blaðið Financial Times. Þó hefur viðskiptabankarekstur haldist innan hvers ríkis fyrir sig. Stjórnvöld aðildarríkjanna standa í vegi fyrir myndun sameinaðs evrópsks bankamarkaðar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sýnt aðdáunarvert hugrekki við að liða í sundur samtryggingarkerfi í bankaheiminum. Viðskiptahömlum var létt að hluta í Þýskalandi... en þýskir stjórnmálamenn réðust þá á bankana með kjafti og klóm fyrir að draga úr lánafyrirgreiðslu til lítilla fyrirtækja á heimaslóðum. (Leturbreyting mín) Þýski seðlabankinn bregst til varnar og segir að viðskiptabankarnir verði að hafa frelsi til að hagnast. Erlendir fjárfestar hafa lítinn áhuga á þýskum bönkum vegna viðskiptahafta sem þar eru enn við lýði. Hagnaðarvon er mun meiri í bankakerfinu á Ítalíu, en þar stendur ítalski seðlabankinn þversum í vegi fyrir erlendum fjárfestum. Sama gildir um önnur Evrópuríki. Hinsvegar eru stærstu og ábatasömustu bankarnir í löndum sem standa opin fyrir erlendum fjárfestum... eins og Bretland er. Evrópusambandið verður að halda áfram að brjóta viðskiptahömlur á bak aftur, svo að heilsteyptur viðskiptabankamarkaður hagnist neytendum líkt og aðrir óheftir evrópskir markaðir. Segir Financial Times."

Það er nefnilega það. Gott að vita að áfram verður haldið aðförinni að velferðarsamfélaginu. Þetta er nauðsynlegt að vita fyrir okkur sem erum staðráðin í því að láta þennan mannskap ekki ná sínu fram. Við ætlum að efla velferðarsamfélagið en ekki láta brjóta það niður!