Fara í efni

JÖKULSÁRLÓN ER EKKI FLOKKSPÓLITÍSKT

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.04.16.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, minnti okkur á það í vikunni að fyrirhuguð sala á Jökulsárlóni verðskuldaði þjóðarathygli. Jökulsárlón ætti að vera í þjóðareigu enda eitt vinsælasta djásnið sem þjóðin skartaði. Sala á Jökulsárlóni, hugsanlega út fyrir landsteinana, væri glapræði og í því samhengi benti Ásmundur Einar réttilega á að „ekkert mál ætti að vera stærra næstu vikurnar." Nú lægi mikið við „að fólk úr öllum áttum taki höndum saman! Stjórnvöld verða einfaldlega að leita allra mögulegra leiða til að koma í veg fyrir að þetta gangi í gegn."

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona VG, hefur einnig brugðist við og lagt fram fyrirspurn á þingi um framhald þessa máls. Og viti menn Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, bættist í hópinn undir vikulokin og vill kanna áhuga á kaupum ríkisins og að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Það voru góðar fréttir!

Þessi viðhorf eru hluti af vakningaröldu sem risið hefur í þjóðfélaginu og minnir um margt á áskorun fjölda Íslendinga, bæði utan flokka og úr flokkaflórunni allri, svo og öllum kimum atvinnulífs, meninngar og lista, fyrir nokkrum misserum, um að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Ástæðan var sú að útlendur milljarðamæringur vildi eignast þá miklu jörð. Hún ætti hins vegar að vera hlekkur í eignarhaldskeðju í þjóðareign sem umlykur öræfi Íslands. Það var alla vega mat þeirra sem beindu því til stjórnvalda að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum.

Enn er verið að hugsa málið í Stjórnarráðinu. Ekki er öll von úti að sú hugsun leiði til jákvæðrar niðurstöðu.

En skiptir máli hvort eignarhaldið er útlent eða innlent? Flokkast slíkar vangaveltur ef til vill undir illa þjóðrembu? Ef svo er þá skal ég gangast við henni. Í mínum huga er þetta þó ekki meiri þjóðremba en sú sem birtist í heiti Grænlands á grænlensku, Kalaallit Numat. Það mun þýða land þjóðarinnar sem landið byggir. Þessi tenging á milli lands og samfélags er umhugsunarverð. Ekki síst fyrir okkur sem nú stöndum frammi fyrir því að ákveða hvort við ætlum að heimila að eignarhald á landi og þar með auðæfum sem landinu tilheyra, sé selt út fyrir landsteinana. Kannski væri ráð að endurskíra Ísland og kalla það land íslensku þjóðarinnar, þess fólks sem Ísland byggir?

Jafnvel þótt við endurskírðum ekki Ísland gæti þetta orðið ágætt vinnuheiti; að við hugsuðum gjörðir okkar og ákvarðanir með þessa hugsun að leiðarljósi.

Við skulum ekki gleyma því að samkvæmt verstu lagabreytingu Íslandssögunnar, sem gerð var undir aldamótin, er búið að tvinna saman eignarhald á landi og þeim jarðefnum sem þar er að finna og þá einnig vatninu. Lágmark er að eignarhald á auðæfum landsins sé varðveitt innan landsteina og okkur öllum sýnilegt og handfast.

Annars þarf ekki að hafa um þetta óskaplega mörg orð. Við skljum það öll að Herðubreiðarlindir eigum við að eiga saman, Gullfoss og Geysi, Þingvelli og að sjálfsögðu einnig Jökulsárlón. Erum við ekki sammála um það?