Fara í efni

JÓIRAGNARS.BLOG.IS FYLLIR INN Í MYNDINA Í SNÆFELLSBÆ

Fjölmiðlun tekur örum breytingum. Vefmiðlarnir skipa sífellt stærri sess. Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort dagblöð komi til með að þoka fyrir þessum nýju miðlum. Til sögunnar eru komin dagblöð sem byggja tekjur sína einvörðungu á auglýsingum og eru send inn á heimili fólks án endurgjalds. Þetta á við bæði um Fréttablaðið og Blaðið. Morgunblaðið og DV halda sig við áskriftarfyrirkomulagið. Morgunblaðið ber ægishjálm yfir alla prentmiðla landsins. Mbl. er vissulega pólitískur fjömiðill. Það kemur jafnan í ljós á hinum pólitísku ögurstundum. Morgunblaðið er engu að síður mjög meðvitað um stöðu sína og mikilvægi þess að bjóða upp á alhliða umfjöllun um málefni líðandi stundar. Almennt tekst Mogga það ætlunarverk sitt vel. Stundum prýðilega.
Tilefni þessara hugleiðinga er ofurlítið langsótt. Það varð mér umhugsunarefni í sumar þegar bæjarblaðið Jökull í Snæfellsbæ neitaði mér um birtingu á grein um uppsagnir starfsmanna í bæjarfélaginu. Þessar uppsagnir hafði blaðið fjallað um og birt greinar um efnið. Ég vildi skýra mín sjónarmið í málinu en að því kom ég sem formaður í heildarsamtökum launafólks. Ritstjóri ætlaðist til þess að grein mín yrði skorin niður við trog – aðeins þannig fengist hún birt – enda þótt hún væri talsvert styttri en aðrar greinar sem birst höfðu um þetta tiltekna málefni í blaðinu. Þetta kallast ritskoðun og varð til þess að ég sendi grein mína á hvert einasta heimili í Snæfellsbæ með aðstoð okkar ágætu póstþjónustu. Fyrir nokkru féll dómur í þessu máli. Uppsögn trúnaðarmanns sem ekki hafði verið endurráðin var dæmd ólögleg. Ekki þótti Jökli ástæða til að fjalla um þessa niðurstöðu. Þetta gerir íbúi í Snæfellsbæ, góður félagi minn úr verkalýðshreyfingunni, Jóhannes Ragnarsson, að umræðuefni á heimasíðu sinni: http://www.joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/161247/
Til að glöggva sig á atburðum í Snæfellsbæ er greinilega ekki nóg að fletta í Jökli. Myndin verður ekki skýr fyrr en www.joiragnars.blog.is  hefur fyllt inn í hana.