Fara í efni

JÖFN BYRÐI BRÝTUR ENGRA BAK - NOKKRIR ÞANKAR Á PÁSKADAGSMORGNI

Páskar 2013
Páskar 2013

Notalegasta fjölskyldustund ársins stendur nú yfir. Allir slakir - nema náttúrlega starfsfólk heilrigðisþjónustu, löggæslu, slökkviliðs og í annarri bráðaþjónustu sem alltaf þarf að vera til staðar. Og að venju á páskum skartar  Ríkisútvarpið sínu besta.

Heim að Völlum

Heyrði í Ævari Kjaratanssyni og að sjálfsögðu er Gunnar Stefánnson mættur, að þessu sinni horfði hann Heim að Völlum. Ómissandi maður þegar á reynir. Og falleg tónlist ómar.
Sjálfur hef ég nokkuð verið á ferð og og flugi og því takmarkað séð og heyrt af öllu því dagskrárefni sem verið hefur á boðstólum.

Á ekki langt að sækja það

Sá þó sjónvarpsþáttinn með „uppistandaranum" Ara Eldjárn í sjónvarpinu. Stórsnjall maður. Á ekki langt að sækja það. Hlustaði á Ara um daginn fílósófera á málþingi Innanríkisráðuneytisins um almannasamgöngur. Hann kitlaði hláturtaugarnar en jafnframt sagði hann margt á dýptina og til umhugsunar.

Hvellur á annan

Ætla að horfa á Hvell á morgun, annan í páskum, upprifjun á Laxárdeilunni frá árinu 1970 - þegar heimamenn tóku málin í sínar hendur með afgerandi hætti og sprengdu í loft upp stífluna sem í smíðum var og hefði valdið mikulm náttúruspjöllum. Því miður komst ég ekki í kvikyndahús þegar þessi mynd Gríms Hákonarsonar  var sýnd þar. Þökk sé Sjónvarpinu að taka myndina nú til sýningar.

Eldfjall

Horfði á Eldfjall, mynd í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar á föstudag. Myndin fjallar um eldri mann sem sýnir hvern mann hann hefur að geyma þegar hann hlynnir að konu sinni sem lamast hafði af heilablæðingu. Myndin gefur mjög trúverðuga, djúpa og hlýja innsýn í ýmsar víddir mannlegra tilfininnga og tilveru. Mér fannst þessi mynd hreint frábær. Leikur, kvikmyndataka og allt myndmál,  umgjörð  og að sjálfsögðu samhæfingin öll í stjórn leikstjórans og samverkafólks, allt sérlega vel gert. Enda margverðlaunað. Kærar þakkir.

Málsháttur Ögmundar Óskars og ... 

Lokaþanki í þessari páskadags morgunkveðju er svo um málshætti. Páskaeggjaframleiðendum eigum við eitt að þakka: Gríðarlegan uppgang í málsháttum. Eitt er víst að málsháttum hefur fjölgað mikið með vexti páskaeggjasölunnar og án efa margir hagir orðasmiðir þar að verki. Þótt ekki ætli ég að allir nýju málshættirnir verði ódauðleg speki, þá er þar margt vel sagt. Sumt meira að segja mjög vel sagt. Og það sem meira er, ég velti því fyrir mér hvort málshættirnir kunni að einhverju leyti að vera spegill á tíðarandann. Ég vona að svo sé.
Mér finnst margt eins og meitlað úr úr stefnuskrá VG. Eins og til dæmis þessi málsháttur sem var í eggi Ögmundar Óskars, dóttursonar míns: „Jöfn byrði brýtur engra bak." 

...hughreystingin

Svo var það hinn málshátturinn, sem gæti átt við um skoðanakannanirnar: „Flest það sem fer á kaf flýtur upp um síðir." Hughreystandi.