Fara í efni

ÍSLENSKUR LANDBÚNAÐUR, ALÞINGI OG ERNA BJARNADÓTTIR

________________________________________________________________________________
Skoðanir á landbúnaðarmálum hafa verið að birtast okkur í ýmsum myndum að undnförnu, í þingmálum, í umræðum á Alþingi svo og í fjölmiðlum. Þar vísa ég sérstaklega til skrifa Ernu Bjarnadóttur.

Á Alþingi hafa menn deilt um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um heimildir til innflutnings á erlendri landbúnaðarvöru. Talsmenn innflutningsverslunarinnar hafa staðhæft að þar sé stigið óheillaskref til takmörkunar; afturhaldsúrræði sem komi neytendum illa. Þetta er illskiljanlegt í ljósi þess hve breytingarnar eru smávægilegar.

Frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er þvert á móti ætlað að festa okkur í fyrirkomulagi sem er með öllu óviðunandi fyrir landbúnaðinn. Í stað smávægilegra breytinga sem eru fólgnar í að stíga til baka um eitt ár í þróun afnáms tolla ætti í ljósi þrenginga íslenskrar landbúnaðarframleiðslu að vinda ofan af tollaívilnunum yfirleitt gagnvart innflutningi sem á í samkeppni við innlenda framleiðslu.

Þegar horft er til þess að innflutningsverslunin hefur verið að svindla á tollaskrám í stórfelldum mæli, er enn ríkari ástæða til þessa. Sýnt hefur verið fram á að vegna falsskráninga tollskjala, er innflutningur, til dæmis á ostum, miklu meiri en ætla mætti samkvæmt innflutningsskrám.
Ekki hef ég heyrt Neytendasamtökin fjalla um þetta sem þó ætti að vera á þeirra verksviði, eða kemur þeim matvælaöryggi Íslands ekkert við?

Allt þetta, vandi í landbúnaði og sviksemi í innflutningi, veldur því að nú ættu stjórnvöld að doka við og draga stórlega úr tollafríðindum gagnvart erlendri landbúnaðarvöru á meðan sest er yfir mótun heildarstefnu og þá ekki síst í ljósi þess að heimsfaraldur beinlínis kallar á það.  

Hvað skyldi þurfa til að færa ríkisstjórn, Alþingi, Neytendasamtökunum (hvaða neytendur telja þau sig vera að vinna fyrir?), Samkeppnisstofnun, því miður ASÍ einnig samkvæmt þeirra umsögn um framangreint frumvarp, og sumum fjölmiðlum - heim sanninn um  að innlent matvælaöryggi kunni að vera nokkurs virði?
Maður hefði haldið að Covid-veiran nægði.

Ég mæli með því að allir hlutaðeigandi lesi tvær nýjustu greinar Ernu Bjarnadóttur, sérfræðings hjá MS, um þessi mál, samanburð við Noreg og vangaveltur um hvert skuli stefna. Fáir, ef einhverjir búa yfir eins mikilli þekkingu á þessum málum og Erna Bjarnadóttir. Um það hef ég sannfærst af lestri greina hennar um árabil.

Hér eru slóðir á umræddar tvær greinar eftir Ernu Bjarnadóttur:
https://www.visir.is/g/20202049876d/-rad-sem-duga-

https://www.frettabladid.is/skodun/ees-samningurinn-og-landbunadur/