Fara í efni

ÍSLENSKT SUMAR

Ísland er yndislegt. Því getur enginn maður mótmælt. Þetta skynjum við þegar við ferðumst um landið. Yfirleitt gerist ég ekki mjög persónulegur á þessari síðu. Þó langar mig til að segja frá skemmtilegri persónulegri reynslu. Ég fór ásamt fjölskyldu norður í Skagafjörð um Verslunarmannahelgina, hafði aðsetur á Höfðaströndinni þótt við færum víðar um. Þar á meðal var Vesturfarasetrið heimsótt og skoðaður sá hluti þess sem við höfðum ekki séð áður, nefnilega sýning á ljósmyndum íslenskra ljósmyndara vestra frá síðari hluta 19.aldar og öndverðri 20 öldinni. Mjög er vel að sýningunni staðið eins og öðru á Vesturfarasetrinu.

Annað af ferðamannslóð þar nyrðra verð ég að nefna en það er Lónkot. Það höfðum við reyndar áður heimsótt. Amma konu minnar er skráð fædd í Lónkoti en hún mun hafa komið í heiminn á báti á leið frá Málmey á Skagafirði, sem tók land í Lónkoti. Þar dvaldist hin unga mær ekki lengi við enda aðeins stutt áfangastopp inn í langt og merkilegt líf. Í Lónkoti er nú rekinn matsölustaður og aðstaða fyrir stór og smá mannamót. Þar er sitthvað til minningar um Sölva Helgason, en skáldverk Davíðs Stefánssonar, Sólon Íslandus er byggt á erfiðri ævi hans sem spannaði mest alla 19. öldina. Hann var fæddur á Fjalli í Sléttuhlíð árið 1820 og lést 1895. Lengst af var hann förumaður, þótti alla tíð sérkennilegur, drátthagur með afbrigðum og eru enn til eftir hann margar myndir, listilega vel gerðar.
Við kynntumst matsölustaðnum í Lónkoti – Sölvabar -  í þessari ferð. Þarna snæddum við einhverja bestu máltíð sem við höfum fengið á nokkrum veitingastað, hráefni úr sveitinni, allt frá fiskinum sem dreginn hafði verið úr skagfirskum sjó til bláberja úr Sléttuhlíðinni og fjóluíssins. Uppskrift hans mun vera viðskiptaleyndarmál eldhússins í Lónkoti. Ég treysti mér að mæla með Lónkoti sem áfangastað og matsölustað fyrir sælkera! (sjá HÉR)

Á leiðinni heim ókum við suður Kjöl. Það var skemmtilegt og ekki dró það úr hughrifunum af stórbrotinni náttúru hálendisins að hlýða á nýútgefinn disk Gerðar Bolladóttur sópransöngkonu. Hún syngur þar íslensk þjóðlög við undirleik Hlínar Erlendsdóttur fiðluleikara og Sophie Schoonjans hörpuleikara. Diskurinn ber heitið Fagurt er í Fjörðum. Á þessum diski er að finna blöndu af veraldlegum og trúarlegum

þjóðlögum. Músíkantarnir eru frábærir og eftir því sem ég heyri Gerði oftar syngja rennur það betur upp fyrir mér hve frábær listamaður hún er, tvímælalaust í fremstu röð íslenskra söngvara.

Að lokum um sumarið íslenska. Nú sem undanfarin sumur reið ég út með góðum vinum, að þessu sinni úr Stafholtstungum í Borgarfirði í Dali vestur. Við riðum Langavatnsdal, Laugardal, Hörðudal og síðan Haukadal upp í Holtavörðuheiðina að vestan. Komum niður hjá Fornahvammi og riðum suður Norðurárdal. Þar óx Nasi, reiðskjóti minn, úr grasi og mátti finna þegar gæðingurinn kenndi heimahaganna. Hvílíkt land, Ísland - og hvílíkir heimahagar. Um það vorum við Nasi sammála að eftirsóknarverðara land væri vandfundið.


Snorri, Pétur, Reynir, Ögmundur, Logi, Oddur, Rúnar: Galvaskir sveinar á Steinum í Stafholtstungum í upphafi útreiðatúrs í Dali vestur.