Fara í efni

ÍSLAND ÚR NATÓ, HERINN BURT!

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.11.23.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, minntist þess nýlega í ræðu í Japan hve skelfileg minningin væri af kjarnorku árásunum á Nagasaki og Hiroshima fyrir 78 árum. Þar fórust á þriðja hundrað þúsund manns og enn fleiri hlutu varanleg örkuml þegar bandaríski herinn varpaði kjarnorkusprengjum á borgirnar. Van der Leyen lét þess hins vegar ógetið hver árásaraðilinn var og vissu menn ekki betur, hefði mátt ætla að það hefðu verið Kremlverjar því hún tengdi fortíð og samtíð með því að segja að “nú hóti Rússland því að beita aftur kjarnorkuvopnum.”

Þessi tegund áróðursmennsku á greiðan aðgang inn í vestrænan fjölmiðlaheim og þaðan inn í vitund almennings. Sem betur fer hefur fulltrúalýðræðið á þjóðþingum og gagnrýnin fréttamennska séð til þess að gagnstæð sjónarmið hafa fengið að heyrast og fyrir vikið ein hlið, hvað þá hin upplogna, aldrei orðið allsráðandi. Þannig hefur það verið þar til nú að þetta er breytt.

Á Íslandi þýðast nú allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hernaðarhyggju NATÓ. Það á líka við um Vinstrihreyfinguna grænt framboð þrátt fyrir texta í stefnuskrá þess flokks sem segir allt annað. Auðvitað eiga flokksmenn að gera annað tveggja, breyta stefnuskrá sinni eða framfylgja henni. Annað eru óheilindi. Þegar eitt er sagt en annað gert grefur það undan trúverðugleika stjórnmálanna og þar með fulltrúalýðræðinu.

En VG er ekki eitt um að kúvenda gagnvart NATÓ. Það á einnig við um flesta vinstri flokkana á Norðurlöndum og á ég þá við þá stjórnmálaflokka sem skilgreina sig vinstra megin við krataflokka. Þeir hafa annað hvort sannfærst um “villu síns vegar” eða komist að þeirri niðurstöðu að farsælast sé að fylgja meginstraumnum, gerast liðsmenn NATÓ og tala fyrir “vopnuðum friði” eins og það heitir í orðabók hernaðarhyggjunnar.
Bandaríski geimvísindamaðurinn Carl Sagan minnti einhvern tímann eftirminnilega á hve varasamt það væri að láta vopnaiðnaðinn telja okkur trú um að því fleiri drápstól sem við fengjum í hendur, þeim mun meira yrði öryggi okkar, því aldrei yrði það meira en öryggi andstæðinganna tveggja sem sætu í sama rýminu, um gólfið flæddi eldfim olía, annar hefði sjö þúsund eldspýtur, hinn fimm þúsund. Ein eldspýta nægði hins vegar til að granda öllu og öllum.

Vandinn fyrir vinstri flokkana er sá að hernaðarhyggjan rekst á sitthvað annað í stefnuskrám þeirra. Þannig segja þeir flestir nú orðið að barátta gegn mengun í andrúmsloftinu eigi að hafa forgang umfram allt annað.

En svo kallar mengandi vopnaiðnaðurinn og vill framleiða fleiri vopn – miklu fleiri og öflugri eldflaugar og sprengjur. Þá daprast þeim sjón og heyrn sem segja okkur vera hársbreidd frá því að tortíma lífríki jarðarinnar. Umyrðalaust veita íslensk stjórnvöld, með VG innanborðs, nú aðstöðu fyrir árásarþotur búnar kjarnorkuvopnum og að sama skapi fyrir kjarnorkukafbáta og ekkert þykir sjálfsagðara en að orustuflugvélar fái hér aðstöðu til að hringsóla um himinhvolfið og menga sem aldrei fyrr.

Ekki eru allir sáttir við þessa þróun og hef ég fyrir satt að víða um Evrópu og þá einnig á Norðurlöndunum kraumi undir og þykir jafnvel líklegt að margir vinstri flokkar klofni fyrr en síðar.

Vinstri vængurinn yrði þá um sinn enn minni en nú er. Það er ekki þar með sagt að þá muni fara minna fyrir vinstri pólitík og andstöðu við hernaðarhyggju. Þvert á móti munu þessar raddir fara að heyrast betur á ný.

Líklegt má heita að ein megin skýringin á því að skoðanakannanir sýna vaxandi stuðning við hernaðarbandalag og hernaðarhyggju sé sú að á þingum og í fjölmiðlum tala flestir sem aðgang fá að hljóðnemum þjóðfélagsins í anda hernaðarhagsmuna Vesturveldanna og þeir sem andæfa eru að sama skapi þaggaðir á þeirri forsendu að þeir flytji eintómt fals.

Fari svo að vinstri menn í Evrópu, gagnrýnir menn í Bandaríkjunum og róttæk öfl í fátækum ríkjum, vakni til lífsins eins og merki eru þegar um, þá mun margt geta breyst á skömmum tíma. Menn munu þá koma auga á öll þau huldu stríð sem nú eru háð í heiminum, yfirgang og ásælni heimsauðvaldsins í auðlindir svo og efnahagsþvinganir í garð þeirra ríkja sem neita að þýðast þetta vald. Þá verður veröldin ekki lengur í einum lit, heimurinn ekki lengur eintóna.

Sá tími gæti meira að segja runnið upp að þau sem tala í nafni Íslendinga verði gagnrýnin á yfirgangsöfl hvarvetna sem þau hafa sig í frammi og standi jafnframt fjarri þeim sem tala fyrir vígvæðingu. Hún getur nefnilega af sér ofbeldi og eyðileggingu og getur vissulega leitt til þess að kjarnorkuvopnum verði beitt á ný eins og Ursula von der Leyen varaði við - af Rússum, það er vel hugsanlegt, eða þeim sem áður hafa drepið með slíkum vopnum.

Undirlægjuháttur fer Íslendingum illa. Það á reyndar við um alla menn. Það er tilhlökkunarefni að fari að heyrast - fyrst frá fáum, svo smám saman fleirum - og af margefldum krafti, hvatning sem á við í dag ekkert síður en í gær:
Ísland úr NATÓ, herinn burt!