Fara í efni

ÍSLAND ÚR NATÓ!

Í dag gekk í gildi samningur Sameinuðu Þjóðanna um bann gegn kjarnorkuvopnum.
51 ríki hafa staðfest samninginn. Hvorki Ísland né neitt annað NATÓ-ríki er í þeim hópi. Það er engin tilviljun. NATÓ er fylgjadi kjarnorkuvopnum.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins íslenska af þessu tilefni segir að stefna Íslands sé “afdráttarlaus”. Og hver skyldi hún vera? Jú, að “Ísland stefni að kjarnorkuvopnalausri veröld.” En er þetta afdráttarlaus afstaða Íslands?

Hið “afdráttarlausa” er augljóslega að farið er að vilja NATÓ þegar NATÓ mælir svo fyrir. Meintri stefnu Íslands um kjarnorkuvopnalausa veröld er svo flíkað þegar NATÓ telur það ekki skipta máli.  

Í heiminum eru talin vera 13 þúsund kjarnorkuvopn. NATÓ-ríki búa yfir drjúgum hluta þeirra. Afstaða bandalagsins er sú að það sé hið besta mál. Það séu bara ríki utan NATÓ sem ekki eigi að hafa kjarnorkuvopn. Það er hin “afdráttarlausa” afstaða NATÓ. Og þá afstöðu styður Ísland með þögn sinni og fylgispekt.

Hvað á að kalla svona hráskinnaleik?
Svari hver fyrir sig.

Getur verið að Íslendingar leggi svo mikið upp úr því að sýna fullkomna undirgefni gagnvart NATÓ að þeir þori ekki að mótmæla kjarnorkuvopnum, afdráttarlaust, óháð því hver í hlut á, helsprengjunni, sem vel að merkja hefur aðeins verið beitt af einu ríki, forysturíkinu í NATÓ, Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Ef Ísland stæði afdráttarlaust með yfirýstri eigin stefnu legðu íslensk stjórnvöld þegar í stað fyrir Alþingi tillögu um að Ísland styðji samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.
Hitt fylgdi síðan á eftir - eða á undan - kjósi menn svo, að Ísland segði sig úr NATÓ!

Þetta væri hið rökrétta að gera fyrir ríki sem afdráttarlaust vill láta taka orð sín um “kjarnorkuvopnalausan heim” alvarlega.

Um "öryggisstefnu Íslands: https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20151117T165124

Nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vg-getur-ekki-leyft-ser-ad-leyfa-hernum-ad-snua-til-baka