Fara í efni

ÍSLAND OG AÐKOMUFÓLK


Fáir málaflokkar eru eins flóknir og viðkvæmir og sá málaflokkur sem settur er undir regnhlífina „útlendingamál" Sú regnhlíf er alltof stór enda misvísandi að tala um allt það sem er undir henni sem einn málaflokk.
Ísland er hluti af kerfi sem mismunar gróflega hvað varðar aðkomu að landinu. Þannig eiga allir þegnar ríkja innan hins Evrópska efnahagssvæðis rétt til að koma hingað til dvalar og starfa en á sama tíma eru sperrur og þröskuldar gagnvart fólki utan svæðisins.
Sú breyting sem ég vil innleiða er að færa faðminn út gagnvart aðkomufólki á forsendum mannúðar  og félagslegra sjónarmiða.
Á sama tíma vil ég engar tilslakanir - nema síður sé - gagnvart fólki sem hingað kemur í vafasömum tilgangi en því miður er það staðreynd að hópar glæpamanna hafa tekið sér bólfestu í landinu til skemmri eða lengri tíma, hingað komnir beinlínis í þeim tilgangi að hagnast með sviksamlegum hætti og vinna samfélaginu tjón.
Það er líka staðreynd að í heiminum er á faraldsfæti stór hópur fólks á flótta undan réttvísinni, oft með sóðalegan glæpaferil að baki, jafnvel stríðsglæpi. Það fólk viljum við ekki. Horfast verður í augu við að þetta er veruleikinn sem starfsfólk Útlendingastofnunar og annarra stofnana stjórnsýslunnar á við að stríða.
Á hinn bóginn er einnig á flótta undan einræðis- og ofbeldisstjórnum enn fleira fólk sem hefur þurft að sæta ofsóknum, kúgunum og í sumum tilvikum pyntingum í heimalöndum sínum. Þetta fólk ber okkur skylda til að skjóta skjólshúsi yfir og það sem meira er, taka opnum örmum.
Þarna þarf að greina á milli. Það getur verið vandasdamt verk og stundum óþægilega tímafrekt. Unnið er að því að stytta þennan tíma en það breytir því ekki að þetta verk þarf engu að síður að vinna.
Ég hef boðað endurmat á stefnu okkar í þessum málum og er það ásetningur minn að halda áfram því góða starfi sem hófst með skýrslugerð um meðferð hælisumsókna í apríl árið 2009 sem síðan leiddi til mikilvægra réttarbóta síðastliðið haust. Enn  þarf að bæta lögin, allt regluverkið og síðan framkvæmd.
Í Kastljósi í gærkvöldi komu þessi mál til umræðu: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545096/2011/05/09/0/
visir.is: http://visir.is/vill-hverfa-fra-strangri-lagahyggju-vardandi-haelisleitendur/article/2011110508999 
http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/5894