Fara í efni

ÍSLAND Í NATÓ OG HER UM KJURRT?


Birtist í Fréttablaðinu 09.03.22.
Farið er að ræða það í alvöru að því er best verður skilið að Ísland verði tengt hernaðarbandalaginu NATÓ enn sterkari böndum en verið hefur og að í landinu verði jafnvel her með fasta viðveru. Þótti mörgum nóg um þá hernaðaruppbyggingu sem þegar hafði verið heimiluð af hálfu íslenskra stjórnvalda en nú skal enn bætt í svo um munar. Og sem táknrænan gjörning í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu er svo að skilja að svokallað loftrýmiseftirlit flugherja NATÓ-ríkja frá íslenskum flugvöllum hafi verið aukið og þá væntanlega í þeim tilgangi að sýna hernaðarbandalagið hnykla vöðvana.  
Ráðherrar í ríkisstjórninni draga hvergi af sér að lýsa yfir „þverpólitískri samstöðu“ með NATÓ og sýnir Vinstrihreyfingin grænt framboð þann stuðning jafnt í orði sem á borði þótt enn sjáist þess ekki stað í stefnuskrám. Veruleikinn birtist í verkunum. Nóg um það að sinni að öðru leyti en því að benda á að hér er í reynd verið að hverfa frá grundvallar stefnumarkmiði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá stofnun flokksins en þá var heitið afdráttarlausri andstöðu við veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATÓ hvað þá við hernaðaruppbyggingu á Íslandi, árásarþotur og setulið í landinu.

Stigmögnun vígbúnaðar

Við höfum nú fengið það staðfest eina ferðina enn á óhugnanlegan hátt hvað það þýðir að búa í heimi þar sem vopnin ráða; þar sem fólki er talin trú um að því öflugri manndrápstæki til staðar þeim mun meira öryggi á þeim stað. Ef þetta er svona þá hljótum við að taka því vel þegar “okkar lið” fjárfestir í enn fleiri sprengjum og enn öflugri eldflaugum enda markmiðið að sögn að tryggja frið og öryggi.
Sama gerist svo hjá “óvinaliðinu”. Og eftir að allir hafa gert sitt besta til að verja sig og sína með fleiri vopnum verður til það sem í kaldastríðinu var kallað “ógnarjafnvægi.” Nema að staðreyndin er sú að aldrei mun verða til það jafnvægi sem sóst var eftir því breyskir eru þeir menn sem hafa putta sína á gikkjunum. Sennilega eru það einmitt þeir menn sem síst er á treystandi sem þar koma nærri.

Ráð öldunga

Þess vegna hafa þeir sameinast, hvor í sínu lagi, öldungarnir Henry Kissinger og Michael Gorbachov, að beina því til kjarnorkuvelda heimsins og þá ekki síst sinna eigin heimalanda, Bandaríkjanna og Rússlands, þar sem þeir höfðu verið í aðalhlutverkum, að leggja öll kjarnorkuvopn til hliðar, afmá þau með öllu. 
Meint ógnarjafnvægi gerir svo meira en að látast tryggja öryggi okkar. Það gerir okkur ofurseld þeim sem slíkt öryggi veita; ofurseld handhöfum vopnanna.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi ætti von okkar að vera sú að almenningur í Rússlandi rísi upp, hinn almenni Rússi, hermaðurinn á vígvellinum, fólkið á götunni. Fréttir berast að örli á slíkum hræringum.

Vildu ekki vinna fólki mein

Þannig var Víetnam stríðið stöðvað, Bandaríkin töpuðu í Víetnam þegar almenningur reis upp og hermennirnir vildu ekki lengur berjast. “Veistu af hverju hætt var að segja frá mannfalli í Víetnam stríðinu?”, spurði bandarískur hermaður þegar við vöktum saman í svefnklefa í næturlest frá London til Edinborgar um 1970. Ég hlustaði alla nóttina, hann talaði og var mikið niðri fyrir. “Það var vegna þess að þegar við fórum vígbúnir út í leiðangra til að drepa fólk þá hugsuðum við um það eitt að halda lífi, földum okkur og lugum síðan til um hve marga við hefðum fellt. Þetta var ekki okkar stríð. Við vildum ekki vinna þessu fólki mein.”

Hagsmunir hernaðar

Það er hernaðarhyggjan sem þarf að víkja, það þarf að kveðja vopnin. Við þurfum að minnast orða Dwights Eisenhower, hershöfðingjans úr seinna stríði sem varð forseti Bandaríkjanna. Hann kvaddi þjóð sína að loknum forsetaferli sínum með orðum á þessa leið: Valdastofnanir samfélagsins þurfa að vera á verði gagnvart ásælni vopnaiðnaðar og hernaðarhagsmuna. Vald sem þaðan sprettur getur leitt til hrikalegra hörmunga og minnumst þess að áhrifin frá þessum öflum eru til staðar og verða til staðar.
Varla er að undra að nú skuli berast fréttir af stórfelldri hækkun á hlutabréfum í hergagnaiðnaði.

Árásarflugvélar á Íslandi án umræðu

Þróunin er ógnvænleg og hefur hún fengið allt of litla gagnrýna umfjöllun á síðustu tímum. Það var sem slökkt væri á allri slíkri umræðu þegar tvíburaturnarnir í New York voru sprengdir í byrjun þessarar aldar. Öll gagnrýni á hernaðarhyggju og baráttuna við hryðjuverk var gerð tortryggileg.
Og til Íslands hefur þessi þöggun teygt anga sína og er nú svo komið sem áður segir að her er nánast umræðulaust farinn að hreiðra um sig á Íslandi, meðal annars með árásarflugvélum sem bera kjarnorkuvopn. Og á Alþingi er hernaðarhyggja NATÓ dásömuð. Sú sama hyggja og hefur átt þátt í að leiða okkur út á þá bjargbrún sem við stöndum á nú eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Sígild krafa og skynsamleg

Sú var tíðin að heimurinn, almenningur og flest ef ekki öll ríki heims, óttuðust kjarnorkuvopn í alvöru og höguðu sér samkvæmt því. Slökun á spennu var mál málanna og í kjölfarið takmörkun vígbúnaðar. Sá tími virðist vera liðinn.
Ráð væri að ganga í smiðju manna á borð við Eisenhower, jafnvel Kissinger og Gorbatsjof og miklu fleiri sem lagst hafa gegn falskenningum ógnarjafnvægisins og tala nú máli afvopnunar.
Á Íslandi ættum við að sýna fordæmi, bægja öllum hernaðartólum frá landinu undir gamalli kröfu en að mínu mati sígildri: Ísland úr NATÓ, herinn burt!
https://www.frettabladid.is/skodun/island-i-nato-og-her-um-kjurrt/