Fara í efni

ÍSLAND Í DAG EÐA ICELAND TODAY?


Á Íslandi í dag dásama menn útrásina svokölluðu og hrópa ferfalt húrra fyrir auðmönnum sem gefa milljarð „úr eigin vasa“ í Háskólann í Reykjavík.  Voru það ekki annars eitt þúsund milljónir sem Róbert Wessman var að láta af hendi rakna? Menntamálaráðherra segir að þetta sé framtíðin og rektor Háskóla Íslands tekur undir.  Sem bakrödd í þessum kór, sem nú syngur óð til auðmagnsins, birtist síðan bankastjóri Landsbanka Íslands á síðu 13 í mánudags-Mogga og segir okkur að það „kunni að reynast óhjákvæmilegt fyrir íslensk fjármálafyrirtæki að taka upp ensku sem vinnumál í höfuðstöðvum sínum á Íslandi“. Þannig gætu þau „ráðið útlendinga til starfa við ýmsa bakvinnslu…“ Hátt atvinnustig á Íslandi valdi bönkunum nefnilega erfiðleikum við að ráða hæfa Íslendinga til starfa.

Eru þetta framfarir?

Hvað er að gerast? Er Ísland að verða betra með öllum sínum auðmönnum og útrásum eða er samfélagið ef til vill að versna?
Við þetta vakna ýmsar spurningar í mínum huga?
1) Hafa auðmennirnir sem láta fé af hendi rakna til „ góðgerðamála“ staðið sig sem skyldi gagnvart neytendum, því fólki  sem þeir hafa auð sinn frá? Hafa þeir boðið okkur upp á lágt lyfjaverð, lágt olíuverð, lága vexti? Er það ekki forgangsverkefni bisnissmanna að tryggja vandaða vöru og þjónustu á hagstæðu verði? Hafa þeir gert það? Hvað með vextina hjá Björgólfi, hvað með lyfjaverðið hjá Wessman? Hvað segja frjálshyggjuvesírarnir um þetta? Eiga lyfjafyrirtækin kannski að reka háskólana, krabbameinsdeildir sjúkrahúsanna  og sinna landvernd? Er það rétt að láta Sjóvá leggja Sundabraut einsog fyrirtækið leggur til? Er Sjóvá ekki sérfræðingur í tryggingum? Af hverju snýr það sér ekki að úrbótum á því sviði þar sem samansúrruð fákeppni ríkir? Eða er það virkilega ekki eðlilegra viðfangsefni fyrir tryggingafélagið að koma á samkeppni í þágu neytenda í stað þess að vilja nú fara að vasast í vegagerð? Er hægt að kalla svona vinnubrögð annað en ósvifnar sjónhverfingar og blekkingar? Var ekki opinber rekstur einkavæddur vegna þess að samfélagið átti ekki að vasast í markaðsrekstri? En á markaðurinn að ráðskast með samfélagið? Er engin samkvæmni í því sem menn segja og gera?
2) Snýst þetta ekki líka um lýðræði. Eiga fjármálamenn að stýra heilbrigðisþjónustunni og skólakerfinu; eiga þeir að ráða hvar eigi að leggja vegi og byggja brýr, eiga þeir að ákveða hvernig heil bæjarfélög eru skipulögð og hvað eigi að rannsaka í háskólum? Viljum við að peningarnir stýri för; viljum við hrátt auðvaldsþjóðfélag?
3) Er vandinn sem Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, vísar til ekki stjórnvaldsvandi fremur en að það sé íslenskan sem þvælist fyrir? Er ekki verið að þenja hagkerfið um of – þannig að fólk fæst hvergi til starfa svo viðunandi sé og af þeim sökum þurfi að flytja inn fólk í stórum stíl frá útlöndum? Á kannski að gera ensku, rússnesku eða pólsku að tungumáli á elliheimilum Íslands? Það er að gerast. Þar fæst ekki lengur íslenskumælandi fólk til starfa. Á bankastjórinn ekki að beina orðum sínum til þeirra sem stjórna þenslunni í stað þess að gefa í skyn að íslensk tunga eigi helst heima á öskuhaugunum?

Víti til varnaðar

Ekki veit ég hvernig það gerðist að hingað til lands slapp fræðimaður frá Írlandi sem ekki var með eintóna lofsöng um „írska efnahagsundrið“ , sem íslenskir peningahyggjumenn hafa lofsungið svo ákaft undanfarin ár. Allt á að vera gott á Írlandi, hefur okkur verið innrætt, það er að segja eftir að menn tóku að örva þar hagvöxt með skattalækkunum. Hingað hafa verið fluttir inn fyrirlesarar á undanförnum árum til að sannfæra okkur um einmitt þetta. Síðan birtist hann Peadar Kirby, prófessor í alþjóðastjórnmálum við háskólann í Limerick og flytur hér erindi á vegum Rannsóknarseturs um smáríki. Hafi setrið þökk fyrir svo og Blaðið sem flutti okkur greinargóða frásögn af fyrirlestri prófessorsins laugardaginn 15. september.

Helstu efnisþættir í þeirri frásögn eru eftirfarandi:
Hagvöxtur er æskilegur, að mati prófessorsins, en samhliða miklum hagvexti þarf að „ styrkja innviði samfélagsins og koma í veg fyrir upplausn þess, og heildræn og öflug opinber stefnumótun til að stuðla að hæfilegri skiptingu auðs.“
Aukin misskipting auðs hafi haft illar félagslegar afleiðinga:  ´“Ójafnræðið sem ríkir milli ríkra Íra og hinna fátækari hefur…valdið ákveðinni upplausn í samfélaginu, ... samloðun og tilfinning um að einstaklingurinn tilheyri hóp hefur minnkað…“
Þrátt fyrir mikinn hagvöxt hafi heilbrigðiskerfið verið látið sitja á hakanum, bilið á milli ríkra og fátækra hafi aukist.  Það hafi gleymst að „hagkerfið er hluti af samfélaginu“ og að hagvöxt eigi að nýta til að styrkja opinbera þjónustu.

Nú er mér spurn:  Ætlum við að taka því þegjandi að forsvarsmenn okkar í  heilbrigðis- og menntakerfinu dásami örlæti auðmannanna eða ætlum við að sætta okkur við ráðherrana sem segja að þetta sé það sem koma skal?  Is this the Icealnd you are asking for mr. Director general of Landsbanki  Íslands? Þetta er ekki það Ísland sem ég vil. Það fjölgar í þeim hópi sem er búinn að fá upp í kok af auðmannadekrinu og neitar að lýrðæði verði látið víkja fyrir auðræði.