Fara í efni

Írak úr ýmsum áttum

Ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að hún vilji kosta nýja gervilimi á lítinn dreng sem var limlestur í árásunum á Írak. Fjölskylda hans var öll drepin og heimili lagt í rúst. Það er í sjálfu sér þakkarvert að ríkisstjórnin skuli með þessu finna til ábyrgðar á afleiðingum árásanna á Írak en þær eru sem kunnugt er gerðar með fullu samþykki ríkisstjórnar Íslands. Ekki er vitað hve marga Bandaríkjamenn og Bretar hafa þegar myrt í árásunum en ljóst er að auk þeirra sem innrásarherirnir hafa drepið er mikill fjöldi fólks sem hlotið hefur örkuml fyrir lífstíð.

Það hlýtur að trufla fólk að á sama tíma og ríkisstjórn Íslands býðst til að veita líknaraðstoð heldur hún áfram að leggja blessun sína yfir árásirnar og þar með allar þær mannlegu hörmungar sem þær hafa haft í för með sér. Í síðasta pistli Magnúsar Þorkels Bernharðssonar hér á síðunni lýsir hann þeirri stórfelldu eyðileggingu sem unnin hefur verið á íröskum fornminjum og söguritum. Menn spyrja hvort það kunni að vera af ásettu ráði sem innrásarherirnir leyfðu eyðileggingu á mennigararfleiðinni. Þegar ferill þeirra sem standa að skipulagningu þessara ódæðiverka, sem unnin eru í nafni Bandaríkjanna og Bretlands, er gaumgæfður, þá kemur í ljós, að við erum komin mjög nærri fasískri hugsun. Í þeirri hugsun er mjög rík meðvitund um mikilvægi sögunnar og þeir sem haldnir eru drottnunargirni í ofanálag reyna iðulega að svipta andsæðing sinn einmitt henni: Sögunni. Ástralski blaðamaðurinn Robert Fisk, sem meðal annars skrifar fyrir breska blaðið Independent gerir því skóna í nýrri grein, http://argument.independent.co.uk/commentators/story.jsp?story=397925 ,

að eyðilegging á mennigararfleifð Íraka og öllu innra stoðkerfi landsins sé að yfirlögðu ráði og spyr hvers vegna sigurvegararnir sýni engan áhuga á því að hafa uppi á böðlum og pyntingarstjórum Saddams Husseins. Reyndar berast nú greinar frá Írak og víðar sem gera því skóna að samið hafi verið á bak við tjöldin við Saddam, með milligöngu Abdullah prins af Saudi Arabíu, sérstaks vildarvinar Bush fjölskyldunnar, um að Bagdad yrði afhent Bandaríkjamönnum gegn því að böðlarnir yrðu látnir komast undan. Þannig eru sögusagnir á kreiki um að Saddam Hussein kunni að vera kominn til Mekka í Saudi Arabíu. Fisk veltir því fyrir sér hvort böðlarnir séu þegar konmnir á mála hjá innrásaraherjunum.

Ef einhverjum finnst ég taka djúpt í árinni í ásökunum mínum í garð íslenskra stjórnvalda vegna fylgispektar þeirra við innrásaröflin, þá verða hinir sömu að leggja það á sig að kynna sér það efni sem nú er að koma upp um hernaðinn gegn Írak og þá sem þar standa að baki. Við heyrðum áhrifaríka lýsingu Jóns Björgvinssonar í beinni útsendingu frá Bagdad í sjónvarpsfréttum í gær. Hann lýsti meðal annars ástandinu á sjúkrahúsum borgarinnar. Það hafa fréttamenn erlendra sjónvarpsstöðva einnig gert. Fram kemur að litli drengurinn Ali Ismail Abbas, sem talaði til okkar af svo mikilli þjáningu ("jafnvel heilt fjall gæti ekki afborið þennan sársauka") og svo djúpu viti fyrir fáeinum dögum, drengurinn sem utanríkisráðherra Íslands segist vilja hjálpa, er persónugervingur fyrir mikinn fjölda barna sem eins er ástatt fyrir, barna sem munu aldrei bíða þess bætur að hafa fengið hina "frelsandi"  heri "Bandamanna" í heimsókn. Eftrifarandi er vefslóð með fréttum BBC um þetta efni. http://news.bbc.co.uk/go/em/fr/-/2/hi/health/2955829.stm