Fara í efni

INTERNETIÐ, LÝÐRÆÐIÐ OG OFBELDIÐ

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 23.04.14.
Á nýafstöðnu þingi Evrópuráðsins kom internetið mjög til umræðu. Í ályktunartillögu, sem lá fyrir þinginu, var lagt til að samþykkja að líta bæri á aðgang að internetinu sem grunnþjónustu sem allir ættu rétt á. Undir það tók ég í umræðu um málið og benti á að samskipti á netinu og upplýsingaöflun þar, væri orðin mikilvægur hluti daglegs lífs. Rifjaði ég upp könnun sem gerð var í Danmörku undir aldarlok þar sem atvinnurekendur voru inntir efti því hvað þyrfti að vera til staðar á tilteknu svæði áður en þeir treystu sér til þess að taka ákvörðun um að reisa þar starfsstöð.

Nú yrði internetinu bætt við

Þeir hafi svarað því til að á svæðinu þyrftu að vera góð barnaheimili og skólar, heilsugæsla, traustvekjandi löggæsla og samgöngur góðar. "Annars fáum við ekki fólk til starfa," hafi þátttakendur í könnuninni sagt nær einróma. Nú myndu þeir bæta internetinu við. Á því léki enginn vafi í mínum huga.
Í fyrrnefndu umræðuplaggi þings Evrópuráðsins, sem samþykkt var nær einróma áður en yfir lauk, sagði á þá leið, að internetið væri ekki aðeins orðið veigamikill þáttur í stoðkerfi samféagsins heldur í reynd einnig hluti af almannarýminu.

Hluti af almannarýminu

Því væri fráleitt annað en gera sömu kröfur um það sem fram færi á  internetinu og annars staðar í almannrýminu. Reyndar kom þetta sjónarmið einnig fram í fyrrnefndu umræðuplaggi. Þetta þýðir meðal annars að við leggjum að jöfnu ritskoðun frétta á internetinu og í hefðbundnum fjölmiðlum og sama gildir um takmarkanir á almennum samskiptum fólks í millum. Í umræðunni fagnaði ég því sérstaklega að forseti þingsins, Anne Brasseur, hefði fyrir hönd Evrópuráðsins gagnrýnt tyrknesk stjórnvöld fyrir að loka fyrir tilteknar rásir á netinu í aðdraganda nýafstaðinna kosninga.  Benti hún á í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér, að ritskoðun gengi þvert á samþykktir Evrópuráðsins og dóma Mannréttindadómstólsins í Strasbourg.

Snowden á fundi

Evrópuráðið leggur ríka á herslu á gagnsæi og opna umræðu og í samræmi við þær áherslur var efnt til opins fundar með Edward Snowden um gervihnött frá Moskvu. Nokkrum sinnum hef ég tekið mál Snowdens upp á þingi Evrópuráðsins og gerði nú enn í umræðu á þinginu til að þakka fyrir framlag hans til mannréttinda. Snowden sýndi sem kunnugt er fram á hvernig bandaríska leyniþjónustan hefur misnotað tæknina, þar á meðal internetið, til gríðarlega viðmikilla persónunjósna.


Persónuvernd

Þar er komið að hinni hliðiin á hinu opna netsamfélagi - og það er mikilvægi mótvægisins: persónuverndin; að vernda okkur gagnvart þeim sem vilja hnýsast í persónuleg mál sem flestir eru sammála um að aðrir hafi ekki rétt á að hnýsast í. Á þinginu var rætt um mikilvægi alþjóðasamstarfs í þessu efni og má minna á að fram hefur komið tillaga á Alþingi Íslendinga um að Íslendingar skuli stuðla að slíku alþjóðlegu samstarfi. Pétur H. Blöndal er fyrsti flutningsmaður þessa þingmáls en aðrir nefndarmenn í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru meðflutningsmenn.

Vettvangur glæpamanna

Glæpamenn láta ekki möguleika internetsins framhjá sér fara. Persónunjósnir eru að sönnu glæpur þótt þær séu ekki alls staðar skilgreindar sem slíkar. Sama gildir um ofbeldisklám sem er margmilljarða peningavél, sem malar gullið fyrir óprúttna sölumenn. Nýuppgötvaður hópur viðskiptavina framtíðarinnar eru börn sem í vaxandi mæli eru markhópur þessara aðila og hafa þeir fundið leiðir til að þröngva sér inn í heim barnsins. Þá hefur og komið fram að bein misnotkun á börnum fer fram um netið.

Ekkert lagafrumvarp!

Sem innanríkisráðherra fól ég sérfræðingum að kanna erlenda löggjöf, einkum í Noregi og leggja fyrir mig tillögur um hvernig mætti skilgreina klám betur en gert er í íslenskum lögum. Þá setti ég á laggirnar starfshóp til að gera skýrslu um mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir að óprúttnir sölumenn gætu ruðst inn í heim lítilla barna með söluvöru sína. Engar tillögur höfðu mér borist þegar ég hvarf úr embætti. Þess vegna er það mikill misskilningar, sem staglast er á sínkt og heilagt, að ég hafi haft á prjónunum lög um þetta atriði. Málið komst einfaldlega aldrei á það stig að ræða tilteknar tillögur og þá hvort yfirleitt ætti að ráðast í lagabreytingar!

Umræða er nauðsynleg

Það sem eflaust olli þessum misskilningi er sú staðreynd að ég tók afdráttarlausa afstöðu í umræðu um klám og ofbeldsiðnað. Það var nokkur nýlunda að menn voguðu sér að ræða slíkt þegar internetið var annars vegar. Ýmsir ruku upp til handa og fóta og þær raddir heyrðust að bara umræðan ein um einhver afskipti af internetinu gæti skaðað viðskiptahagsmuni íslenskra netfyrirtækja. Utan úr heimi bárust einnig mikil viðbrögð, annars vegar frá málsvörum klámiðnaðarins sem yfirleitt báru fyrir sig ást á skoðanafresli en einnig barst stuðningur frá einstaklingum sem láta sig mannréttindi varða. Hvað neikvæðu viðbrögðin varðar þóttu mér upphrópanirnar minna á að internetið er enn, jafnvel heitustu aðdáendum þess, svo fjarlægt að þeir líta á það sem guðspjöll að hrófla við því, jafnvel að ræða málið er bannað!
Internetið er komið til að vera og á að þjóna okkur sem einstaklingum og samfélagi okkar. Sé það misnotað af ofbeldismönnum þarf að ræða með hvaða hætti þeim verði settur stóllinn fyrir dyrnar.