Fara í efni

INGIBJÖRG ÞÓRÐAR, JÓHANNA SIG. OG LÖGFRÆÐINGAR Í BRUSSEL


Sigurvegari þjóðfélagsumræðu síðustu daga er Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags Fasteignasala. Hún hefur staðið keik fyrir hönd almennings og varið Íbúðalánasjóð og þar með almannahag. Nú er það heilagri Biblíu markaðshyggjunnar í Brussel sem á að beita til að banna okkur að reka húsnæðiskerfi sem grunur leikur á að hafi í sér einhverja félagslega þræði!  Þetta er boðorðið frá Evrópusambandinu, hinu fyrirheitna landi Samfylkingarinnar!
En aftur að Ingibjörgu þórðardóttur. Ég mæli með að hlusta á hana í Kastljósi Sjónvarps í kvöld: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365680/0. Ömurlegur var málstaður talsmanns fjármálafyrirtækjanna, þess ágæta sómamanns Guðjóns Rúnarssonar, sem fengið hefur það dapurlega hlutskipti  að tala máli gróðasjónarmiðanna í samfélaginu. Hans bakhjarlar vilja Íbúðalánasjóð feigan. Þá er það eins og fjölmiðlar skilji ekki til fulls að yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, fela einnig í sér feigðina fyrir sjóðinn. Jóhanna hótar nefnilega að afnema ríkisábyrgð á almennum lánum og að aðskilja félagslega hlutann. Þetta felur í sér mikil tækifæri, segir Jóhanna. Guðjón Rúnarsson tekur undir með félagsmálaráðherra.
Þetta tal er út í loftið. Í reynd þýðir þetta að skattborgarinn verður látinn niðurgreiða lán til þeirra sem ekki geta teflt fram ásættanlegum veðum fyrir bankana. Tryggu veðin ætla banakarnir sér og mér sýnist Jóhanna ætla að afhenda þau inn á „samkeppnismarkað".
Ég hef jafnan litið á Jóhönnu Sigiurðardóttur sem samherja minn í pólitík. Og það geri ég enn. En nú er henni að bregðast bogalistin. Hún er að láta undan Íhaldinu og fjármálafyrirtækjum og má hún vita að félagshyggjufólk mun nú safna liði og berjast gegn þessum áformum ríkisstjórnar sem er að verða fræg af endemum fyrir að lyppast alltaf niður ef lögfræðingur í Brussel ropar.