Fara í efni

Impregilo og útboðsgögnin

Talsmaður ítalska fyrirtækisins Impregilo segir ásakanir á hendur fyrirtækinu um mútugreiðslur ekki eiga við rök að styðjast, hvorki í Lesotho, Argentínu, Gvatemala né Tyrklandi. Í tengslum við verkefni í öllum þessum löndum hafa komið fram ásakanir um mútugreiðslur. Allar eru þær rangar segir Leo Bertini sem nú er staddur hér á landi að semja við Landsvirkjun. Hann segir að varðandi Tyrkland hafi fyrirtækið meira að segja hætt við að bjóða í Ilisu-stíflurnar, m.a. af umhverfisástæðum! Hvað er satt og logið í þessum efnum höfum við engar forsendur til að meta enda mútur sjaldnast sannaðar nema eftir langvinn málaferli. En óneitanlega er undarlegt að þar sem Impregilo kemur við sögu einkum í fátækum ríkjum þriðja heimsins skuli koma fram ásakanir af þessu tagi. Á Íslandi hafa engar slíkar ásakanir komið fram. Hins vegar hefur þótt furðu sæta að Landsvirkjun skyldi birta opinberlega kostnaðaráætlun sína í þau verk sem Impregilo ætlaði að bjóða í. Eins og menn rekur eflaust minni til voru tilboð Impregilo langt undir þessari kostnaðaráætlun. Í kjölfarið færði Landsvirkjun kostnaðaráætlanir sínar niður. Það gaf síðan tilefni til að birta bjartsýnni spár varðandi arðsemi. Arðsemin ræðst af einkum af stofnkostnaði og raforkuverði. Margir hafa af því áhyggjur að stofnkostnaðurinn eigi eftir að stórhækka vegna ófyrirsjánlegra útgjalda sem muni lenda á verkkaupa. Athugunarefnið er því þetta: Bauð Impregilo lágt verð, bæði til að þóknast Landsvirkjun og fá verkið en vitandi vits um að síðar verði hægt með aðstoð hjarðar af lögfræðingum að keyra kostnaðinn upp jafnvel fyrir dómstólum ef ekki vill betur? Í bransanum er talað um að kleima (sbr. claim á ensku) Kunnugir segja að Impregilo sé ekki óvant slíkum vinnubrögðum. Hvernig ber okkur að bregðast við í þessari stöðu? Að sjálfsögðu þurfum við sem eigum að sinna aðhaldshlutverki á Alþingi að fara í gegnum útboðsgögnin og kveðja okkur til aðstoðar sérfróða menn. Þetta verður gert.