Fara í efni

IMPREGILO ER HÉR Á ÁBYRGÐ RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS

Þegar ríkisstjórnin fékk hið alræmda fjölþjóðasfyrirtæki Impregilo til að annast stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi mátti ljóst vera að til sögunnar var kominn framkvæmdaaðili sem einskis myndi svífast til að hagnast á kostnað launafólks. Á þetta var bent í ræðu og riti, meðal annars gerði ég það í blaðagreinum, pistlum hér á síðunni og í ræðum á Alþingi.
Fljótlega eftir að framkvæmdir hófust við Kárahnjúka var farið að flytja inn verkafólk frá láglaunasvæðum heimsins og hafa trúnaðarmenn á vegum íslensku verkalýðshreyfingarinnar síðan þurft að standa í endalausri baráttu til þess að bæta úr ófremdarástandi sem skapast hefur á vinnusvæðum Impregilo og reyna að koma í veg fyrir mannréttindabrot á verkafólkinu.

Mengun undir Þrælahálsi

Fram hefur komið í fréttum að 180 manns hafi leitað til heilsugæslunnar á Kárahnjúkum á tíu daga tímabili í þessum mánuði. Landsvirkjun hefur hlaupið í vörn fyrir Impregiló og segir í yfirlýsingu að aðeins sé um 8 manns  að ræða sem hafi veikst vegna loftmengunar, og 39 vegna matareitrunar. Landsvirkjun segir að aðeins þrír hafi verið lagðir inn á sjúkrahús vegna loftmengunar í göngunum undir Þrælahálsi.
Sannast sagna orkar málflutningur Landsvirkjunar tvímælis og tek ég undir með Halldóri Grönvold, talsmanni ASÍ en í fréttaviðtölum segir hann að nógu alvarlegt væri það þótt aðeins einn maður hefði veikst alvarlegra vegna mengunar á vinnusvæðum Impregilo. Megi undarlegt heita að stjórnvöldi skuli leggjast í karp um tölur í stað þess að viðurkenna hve alvarlegt málið sé.

Gögn læknis tekin ófrjálsri hendi

Þá hefur það vakið athygli að starfsmaður Impregilo skuli hafa tekið ófrjálsri hendi lista yfir sjúklinga í heilsugæslustöðinni að Kárahnjúkum. Mbl.is segir svo frá: “Þorsteinn Njálsson, yfirlæknir á heilsugæslustöðinni á Kárahnjúkum, segir að listi með nöfnum 180 starfsmanna Impregilo sem veikst hafa á síðustu vikum, hafi verið fjarlægður af skriborði sínu af starfsmanni heilsugæslustöðvarinnar á Kárahnjúkum á launaskrá hjá Impregilo, sem hafi svo afhent hann sínum yfirmönnum. Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impregilo, segir ekkert óeðlilegt við að fyrirtækið fái upplýsingar um það hvort starfsmenn þar séu að veikjast.
Þorsteinn segist hafa kallað umræddan starfsmann á sinn fund, og hann hafi játað að hafa tekið listann, sem hafi síðan verið „flaggað” á fundi með vinnueftirlitinu í gær. Hann segist ekki vita að hvers frumkvæði það hafi verið að listinn var afhentur Impregilo. „Persónulegar upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og kennitölur hafa ekkert að gera í höndunum á fyrirtækjum”, segir Þorsteinn og að verið sé að reyna að dreifa athyglinni frá því sem skiptir máli.
Um fullyrðingar um að fjöldi manna á listanum hafi ekki unnið í göngunum og hafi ekki getað veikst þar á síðustu tveimur vikum segir Þorsteinn að um útúrsnúning sé að ræða, hann þurfi að skila skýrslu um hvern einasta starfsmann til Vinnumálastofnunar og að sér þyki ekki sanngjarnt að þurfa að verja hendur sínar þegar ljóst sé að það sé heppni að enginn hafi látist sökum eitrunar.
Þorsteinn segir ekki rétt að enginn hafi veikst alvarlega, að við upphaf síðustu helgar hafi farið að koma menn með alvarleg öndunarfæraeinkenni, á sl. laugardagsmorgun hafi t.a.m. starfsmaður verið ansi hætt kominn vegna astma. Segist Þorsteinn meta alvarleg miðtaugakerfiseinkenni, hraðan hjartslátt upp á 180 slög á mínútu og háan blóðþrýsting vera alvarleg eitrunareinkenni.
Ómar R. Valdimarsson segir það alveg á hreinu að á listanum sé fjöldi manns sem ekki vann í göngunum, heldur fólk sem vann við stíflugerðina, fólk sem starfað hefur á skrifstofu og einstaklingar sem fóru heim í mars og gætu því ekki hafa veikst á undanförnum tveimur vikum.
Segist Ómar aðspurður ekki hafa ímyndunarafl til að geta sér til um hvernig fólkið hafi hafnað á listanum.
Hins vegar segir Ómar það rétt að starfsmaður heilsugæslustöðvarinnar hafi afhent listann.
„Við fengum listann frá heilsugæslunni, það er að mínu mati ekkert óeðlilegt við það, enda er heilsugæslan rekin af Impregilo í samráði við Heilbrigðisstofnun Austurlands”.
Segir Ómar eðlilegt að Impregilo fái upplýsingar um það ef starfsfólk sé að veikjast, en segir að það sé hægt að velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að Vinnumálastofnun sé afhentur listi með þessum persónuupplýsingum.””

Já, það er nefnilega það!  Impregilo rekur heilsugæslustöðina og þess vegna á fyrirtækið að geta gengið að upplýsingum um heilsufar starfsmanna!!! Nú hljótum við að reisa þá afdráttarlausu kröfu á hendur verkstjórnendum undir Þrælahálsi og öllum þeirra fulltrúum, að þeir virði íslenskar samskiptareglur og hætti að reyna að innleiða hér fyrirkomulag sem byggir á kúgun og ofbeldi. Í þessu samhengi skulum við ekki gleyma hver ber endanlega ábyrgð í þessum efnum. Það er ríkisstjórn Íslands. Það er hún sem fékk þennan illræmda auðhring til verkanna við Kárahnjúka. Kjósendur skyldu minnast þess í Alþingiskosningunum 12. maí.

Ef slegið er inn leitarorðinu Impregilo hér á heimasíðunni - efst til hægri - koma upp að minnsta kosti 22 greinar.