Fara í efni

Iðnaðarráðherra þegir í nafni ríkisstjórnar

Birtist í Mbl
Fyrir nokkru síðan birti Morgunblaðið grein eftir undirritaðan undir fyrirsögninni: Fyrirspurn í framhaldi af loforði. Í blaðagreininni var vísað í umræður á Alþingi seint á árinu 1999 um virkjunar- og stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og sérstaklega staðnæmst við þá yfirlýsingu iðnaðarráðherra að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir fyrr en fyrir lægi samningur um orkusölu. Ráðherrann gekk lengra og gaf skuldbindandi loforð fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um forsendur hugsanlegra raforkusamninga. Hinn 20. desember lýsti hann því yfir að ekki yrði samið um orku til nýs álvers „nema sá orkusölusamningur skili 5-6% arðsemi...“ Og hann bætti um betur og sagði að þetta væri nægjanlegur arður til að lækka raforkuverð til almennings um 20-30% og yrði það gert.

Í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein vakti ég athygli á því að þegar væru hafnar framkvæmdir til undirbúnings virkjunum á svæðinu norður og austur af Vatnajökli án þess að fyrir liggi samningar um raforkusölu. Spurði ég í framhaldinu hvort ekki hefði verið neitt að marka þau loforð og þær heitstrengingar sem iðnaðarráðherra gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Óskaði ég eftir svari. Þegar það svar lét á sér standa ítrekaði ég fyrirspurn mína á síðum Morgunblaðsins og óskaði eftir að iðnaðarráðherra svaraði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Enn þegir ráðherrann, engin svör berast og framkvæmdum er haldið áfram. Þetta ber ekki vott um trúverðugleika og virðingu fyrir eigin málflutningi og loforðum.

Ég ítreka því spurningu mína: Hvers vegna eru framkvæmdir hafnar án þess að samningur um orkusölu liggi fyrir? Hvaða skilmála hefur ríkisstjórnin sett í samningum um orkuverð?