Fara í efni

ICESAVE, FORSETINN, ALÞINGI OG LÝÐRÆÐIÐ


Enginn veit hverjar verða lyktir nýs Icesave samnings. Alþingi á eftir að fara í saumana á samningnum. Margt bendir þó til þess að við séum komin á endastöð í þessu máli sem verið hefur þjóðinni erfiðara en flest mál; ekki fyrst og fremst út á við einsog sumir eru óþreytandi að telja okkur trú um. Heldur inn á við.
Svo var komið fyrir nær réttu ári á Alþingi að ljóst var að þingið kæmist ekki lengra með málið. Á það benti ég  í ræðu og riti. Það gerðu og aðrir þingmenn sem gagnrýnir voru á samninginn.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/tiu-stadreyndir-um-stodu-icesave-malsins-a-althingi 
 

Lengra varð ekki komist á þingi

Það var ekki ógæfa Alþingis að samþykkja frá sér samninginn í desemberlok í fyrra.  Öllum mátti ljóst vera að lengra yrði ekki komist á þingi. Það var þrautreynt. Alþingi átti ekki annarra kosta völ. Þingið lá ofan í skotgröfum. Einu hefði gilt hvort samningurinn hefði verið samþykktur eða felldur á þessu stigi. Hefði samningurinn verið felldur hefði málið hjakkað áfram  í sama farinu. Stjórnin hefði farið frá og málið nú hugsanlega  komið í hendur  stjórnarandstöðu sem að hluta til hafði áður staðið að mun veri lausn! Nokkuð sem sjaldan er í hávegum haft - og alls ekki í fréttaskýringunum sem hellast yfir okkur án afláts. Sannast sagna held ég að þetta hefði ekki verið til góðs.

„Allt vald kemur frá fólkinu"

Það sem öllu máli skipti og varð okkur til gæfu var að málinu skyldi á þessu stigi - vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það gerði forseti Íslands og á hann lof skylið fyrir framgöngu sína. En þetta gerði forsetinn ekki fyrr en um það bil þriðjungur kosningabærra manna í landinu höfðu undirritað áskorun þess efnis. Hann tók og ákvörðun sína með skírskotun til þess að innan þingsins - í stjórnarmeirihlutanum, væru einstaklingar sem réru að því öllum árum að koma málinu á annað og æðra stig - til fólksins - þaðan sem allt vald á uppruna sinn - svo vísað sé til orða Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns VG, sem hart gekk fram í þessu. Það gerðu einnig fleiri stjórnarþinggmenn. Var haft á orði að nokkur þúsund manns hefðu bæst á undirskrifatalista Indefence eftir að Ásmundur Einar Daðason hafði flutt sína hvatningarræðu í beinni útsendingu við atkvæðagreiðsluna 30. desember.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?horfa=1&raeda=rad20091230T215312

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?horfa=1&raeda=rad20091230T214934

Stjórnarandstaðan mátti sín lítils
Þegar fjölmiðlar rifja upp söguna þykir mér þeir heldur betur gleyma því að það var fyrst og fremst fyrir tilstilli þingmanna úr stjórnarmeirihlutanum að fór sem fór. Þetta mál hefði farið miklu fyrr í gegnum þingið og hljóðlegar ef ekki hefði komið til barátta þessa fólks sem að lokum kom málinu til þjóðarinnar án þess að stjórnin færi frá einsog forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar höfðu hótað að gera. Þetta þekki ég sem ráðherra sem sagði af sér ráðherradómi vegna þessa og einnig áður sem stjórnarandstæðingur á Alþingi í langan tíma - allan aðdragandann að hruninu. Þá var stjórnarmeirihlutinn jafnan tryggur og allt gekk upp. Sama hversu vitlaus og ranglát málin voru. Þau voru studd af gangrýnislausum meirihluta! Kannski verður þessi saga einhvern tíma sögð hvað Icesave snertir. Þá munu margir tala um illsmalanlega ketti á annan hátt en nú er stundum gert.

Hvað gerir forsetinn?
Nú er spurningin hvað forsetinn gerir. Ég hygg að það hljóti að ráðast af hvaða afstaða verður tekin til samningsins á þingi og í samfélaginu almennt. Forsetinn skýrði ákvörðun sína um að skjóta málinu til þjóðarinnar í ljósi lýðræðislegrar andstöðu við málið - innan þings og utan, ekki með skírskotun til málsins sjálfs. Þetta er lykilatriði.
Með hliðsjón af þessu leyfi ég mér að efast stórlega um að forsetinn nýti málskotsréttinn að nýju. Það á þó eftir að koma í ljós hvernig samfélagið bregst við að þessu sinni. En fari sem nú horfir, verðir málið leitt endanlega til lykta á Alþingi.