Fara í efni

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR, RÍKISSTJÓRNIN OG ÁBENDINGAR JÓNS BJARNASONAR

Stundum þarf að benda á einfaldar staðreyndir til að þær verði öllum augljósar. það gerir Jón Bjarnason alþingismaður í mjög svo umhugsunarverðri grein í Morgunblaðinu í dag. Jón fjallar þar um nýlegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi Íbúðalánasjóð.
Hann nefnir tvennt sem sérstaklega er vert að huga að: Í fyrsta lagi sé verið að stíga skref í þá átt að gera Íbúðalánasjóð að heildsölubanka (nokkuð sem fjárfestingafyrirtæki hafa krafist um árabil að gert yrði gegn mótmælum almennings). Í öðru lagi segir Jón að ívilnanir til byggingaverktaka og lánafyrirgreiðsla þeim til handa sé í reynd ekkert annað en byggðastyrkur til suð-vesturhornsins sem jafnan njóti meiri skilnings stjórnvalda en aðrir landshlutar.
Um fyrra atriðið - það er að segja nýtt heildsölubankahlutverk Íbúðalánasjóðs segir JB orðrétt: Með þessu er verið að búa til einkavæddan millilið með ríkisábyrgð á lánveitingum til íbúðakaupa - einskonar gjafafé til bankanna, en íbúðir fólks eru öruggustu veð sem hægt er að fá og trygg gróðalind þeim sem vilja nýta sér þá aðstöðu. Athygli vekur að engar upphæðir eru nefndar hvað varðar ríkisábyrgðina, heldur virðist þar gefinn út óútfylltur tékki til bankanna. Reglur sem bönkunum eru settar virðast hinsvegar afar óskýrar."
Um síðari þáttinn segir JB: „Á landsbyggðinni er togast á um hundraðþúsundkalla í jöfnunaraðgerðir en nú þarf ekki einu sinni að kalla saman fjárlaganefnd Alþingis til að fjalla um tuga milljarða skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs sem þó er skylt lögum samkvæmt."

Hér má lesa grein Jóns Bjarnasonar í heild sinni:


 Tugmilljarða byggðastyrkur til suðvesturhornsins

MEÐAN almennir íbúðaeigendur á landsbyggðinni mega búa við verðfall á íbúðum sínum árum saman vegna kvótakerfisins, þenslu á höfuðborgarsvæðinu og ruðningsáhrifa stóriðjuframkvæmdanna, er hlaupið upp til handa og fóta til að bjarga fyrirtækjum og lánastofnunum sem hafa vaðið áfram í offjárfestingum á suðvesturhorninu. Grátið er hástöfum yfir hundruðum ef ekki þúsundum óseldra íbúða í Reykjavík og nágrannabyggðum, þar sem sveitarfélögin héldu hvert og eitt að þeim bæri að byggja yfir alla fólksfjölgun og fólksflutninga landsmanna.
Nú er lofað óskilgreindum fjölda milljarða í ríkisábyrgðir til handa þessum aðilum án þess að nokkur þarfagreining eða stöðuúttekt hafi farið fram.

Ofþenslan verðlaunuð

Milljarðatuga byggðastyrkur til suðvesturhornsins vegna óráðssíu þykir ekkert mál meðan litið er á aðra landshluta sem ölmusuþega þegar þeir krefjast jafnræðis í aðgerðum stjórnvalda hvað búsetu varðar.
Á landsbyggðinni er togast á um hundraðþúsundkalla í jöfnunaraðgerðir en nú þarf ekki einu sinni að kalla saman fjárlaganefnd Alþingis til að fjalla um tuga milljarða skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs sem þó er skylt lögum samkvæmt.
Á Vestfjörðum og Norðurlandi, heilu landshlutunum, hefur ekki þótt tiltökumál þótt íbúðir fólksins þar séu verðfelldar um 50 til 80% vegna aðgerða stjórnvalda.
Hver man ekki eftir niðurskurðinum í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum fyrir tveim árum til að slá á þensluna á höfuðborgarsvæðinu?

Þeir sem vildu Íbúðalánasjóð feigan!

Það er skondin staða sem komin er upp þegar þeir sem hafa viljað Íbúðalánasjóð feigan beita honum nú til björgunar fjárfestingafyrirtækjum og bönkum og sparisjóðum sem farið hafa offari á suðvesturhorninu á undanförnum árum.
Breyting á Íbúðalánasjóði í heildsölubanka með ríkisábyrgð á útlánum bankanna hlýtur mjög að orka tvímælis.
Með þessu er verið að búa til einkavæddan millilið með ríkisábyrgð á lánveitingum til íbúðakaupa - einskonar gjafafé til bankanna, en íbúðir fólks eru öruggustu veð sem hægt er að fá og trygg gróðalind þeim sem vilja nýta sér þá aðstöðu.
Athygli vekur að engar upphæðir eru nefndar hvað varðar ríkisábyrgðina, heldur virðist þar gefinn út óútfylltur tékki til bankanna. Reglur sem bönkunum eru settar virðast hinsvegar afar óskýrar.

Losum bankana við íbúðalánin!

Fagna ber hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs í 20 milljónir, en sú hækkun hefði átt að koma miklu fyrr og vera hærri. Enn fremur hefði átt að hækka lánshlutfall upp í 90%, a.m.k. fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Brýnt er að koma þeim fjölskyldum til aðstoðar sem eru fastar í greip einkavæddra lánastofnana með íbúðalán sín.
Velta má fyrir sér hvort ekki væri hreinlegra og farsælla að Íbúðalánasjóður hefði verið efldur og honum falið að yfirtaka íbúðalán einstaklinga og félagslegra íbúða milliliðalaust og bankarnir færu út af þeim markaði.
Aðkoma þeirra að íbúðalánum hefur hvort eð er hleypt þessum málaflokki í uppnám og sett í gang offjárfestingu og þenslu sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.
Bankar og stóru sparisjóðirnir hafa kórónað ótrúverðugleika sinn með því að hlaupa inn og út af markaðnum þegar þeim sjálfum sýnist.
Er ekki rétt að losa einkavæddu lánastofnanirnar alveg við þann „kaleik" sem íbúðalánin eru og fela þau félagslegum Íbúðalánasjóði þar sem jafnrétti gildir fyrir alla? Ég held það.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.