Fara í efni

Í UNDRALANDI MEÐ DAVÍÐ ODDSSYNI


Að undanförnu hefur mikið verið rætt um Kárahnjúkavirkjun og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við að ákveða þá framkvæmd. Í því sambandi hefur komið fram að rannsóknir vísindamanna voru ónógar og nauðsynlegum upplýsingum ekki veitt til þeirra sem tóku ákvörðun. Efnahagslegum forsendum var haldið leyndum og greinargerð virts jarðvísindamanns, Gríms Björnssonar, var haldið frá Alþingi á ögurstundu þótt vísindamaðurinn gæfi skýrt til kynna að hann væri að koma á framfæri mikilvægum varnaðarorðum. Í upphafsorðum greinargerðar Gríms Björnssonar segir: "Nú í dag, 14. febrúar 2002, stendur svo til að leggja fyrir Alþingi frumvarp um virkjunina og fá leyfi þingsins til að mannvirkið verði reist. Sökum þess hve undirrituðum finnst þetta verkefni illa undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku, er þessi greinargerð sett saman…"

"Allt sem skipti máli"

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sagði aðspurð að Alþingi hafi á sínum tíma fengið að vita allt "sem máli skipti" og er svo að skilja að hún sjálf og forstöðumenn orkugeirans eigi að ákveða hvað eigi að ganga til Alþingis og hvað ekki.
Undirritaður tók þátt í umræðunni um Kárahnjúka á sínum tíma og bar sig eftir öllu því sem gat skipt máli varðandi umhverfisáhrif, jarðvísindalegar forsendur og hinar efnahagslegu. Jarðvísindalegar og efnahagslegar forsendur eru að sjálfsögðu nátengdar enda hefur komið í ljós að sitthvað af því sem Grímur Björnsson varaði við reyndist á rökum reist og hafa Landsvirkjunarmenn orðið að laga hönnun mannvirkja að sífellt nýjum uppgötvunum. Fram hefur komið hjá virtum jarðvísindamönnum sem komið hafa fyrir þingnefndir að engin virkjun í seinni tíð hafi verið ákveðin á eins ótraustum og illa rannsökuðum forsendum og Kárahnjúkavirkjun og efnahagssérfræðingar hafa furðað sig á hve yfirborðslegar rannsóknir stjórnvalda á þjóðhagslegum áhrifum hafi verið.

En hvernig má það vera að dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar hvíli á svo ótraustum grunni? Ég tel að ástæðan sé sú að eftir að ákvörðun var tekin hafi hvorki verið horft til hægri né vinstri heldur haldið áfram með það eitt að leiðarljósi að öll gagnrýni væri af hinu illa, að ekkert mætti stöðva framkvæmdir.

Vinnubrögð verkstjórans

Hinn 1. september birti Ríkisútvarpið viðtal Ólafar Rúnar Skúladóttur við Davíð Oddsson, núverandi seðlabankastjóra og fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem komið var inn á þetta málefni. Viðtalið er mjög upplýsandi fyrir afstöðu og vinnubrögð þessa fyrrum verkstjóra í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Í viðtalinu er Davíð Oddsson spurður um fyrrnefnda skýrslu Gríms Björnssonar og segir hann meðal annars: "Ég skil svo sem ekkert í þessari umræðu, þessi skýrsla er búin að liggja fyrir í 3-4 ár. Hennar er getið í bók sem kom út árið 2003 og ég veit ekki hverskonar leyniskýrsla það er sem er getið  sérstaklega á prentuðum bókum og allt í einu er þetta orðin merkileg leyniskýrsla. Það er hins vegar þannig að Alþingi tekur ekki ákvarðanir um jarðfræðirannsóknir eða sprungur eða glufur eða þess háttar. Alþingi tekur meginákvörðun um það hvort að menn ætla að fara í virkjun af þessu tagi á þessum tiltekna stað og fyrirtæki sem ríkisstjórnin á stóran hlut í axli skuldbindinga, fari í lántökur og annað þess háttar og selji raforku við verði sem að menn telja að muni gefa fyrirtækinu rúmlega 11% arð á ári. Þetta er sú ákvörðun sem að Alþingi tekur, Alþingi er ekki að rannsaka jarðlög eða þess háttar eins og menn láta núna. Þetta er bara einhver vitleysa sem að alltaf á sér stað í pólitískri umræðu hér á landi og gengur náttúrlega yfir, mér finnst þetta óskaplega vitlaust og feginn að þurfa ekki að taka þátt í þessari umræðu.... Ef iðnaðarráherrann hafði fengið að vita það að þessar athugasemdir þessa tiltekna einstaklings sem hafði tiltekna þekkingu hafði verið komið til skila við rétta aðila, þeir hafi farið yfir það, fengið færustu vísindamenn til að fara yfir það og talið að þær breyta ekki neinu, bíddu, þá er iðnaðarráðherra búinn að gera það sem iðnaðarráðherrann átti að gera, þetta er nú ekki flóknara en það."

Lítið gefið fyrir samherja

Þetta er upplýsandi svar verkstjóra í ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta. Enginn þarf að vita neitt nema það sem framkvæmdaaðilar mata þá á! Ekki veit ég hvað samherjum Davíðs á þingi þykir um þessar trakteringar. Ekki þykir mér hann gefa mikið fyrir sjálfsvirðingu þeirra.
Nú hefur komið á daginn að málið var ekki rannsakað nægilega vel. Það hefur komið á daginn að hvorki jarðfræðilegar né efnahagslegar forsendur voru  nægilga vel grundaðar. Færustu sérfræðingum var ekki falið að gera rannsókn á álitamálum sem uppi voru. Í allt of mörgum tilvikum komu einvörðungu sérfræðingar hagsmunaaðila að málinu.
Með öðrum orðum, það sem Davíð Oddsson gaf sér að yrði gert – gerðist ekki. Þetta hlýtur hann að vita í ljósi atburðarásar síðustu mánaða. Engu að síður ber hann höfðinu við steininn líkt og Valgerður Sverrisdóttir.

Er ekki rétt að fara að tygja sig?

Núverandi Íslandsmeistari í sjálfsafneitun er þó sennilega sá ágæti maður Jón Sigurðsson, núverandi iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Hann segir að ríkisstjórnin hafi ekki fylgt stóriðjustefnu sl. þrjú ár! Hvernig má það vera þegar á teikniborði hennar er nú að finna áform um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir fyrir litla 450 milljarða? Erum við komin til Undralands? Er ekki ráð að fara að tygja sig til ferðar þaðan?