Fara í efni

Í MINNINGU ÖNNU ATLADÓTTUR


Anna Atladóttir.PNG

Slæmt þótti mér að vera í útlöndum og geta ekki fylgt Önnu Atladóttur, samstarfskonu og vini til margra ára, til grafar síðastliðinn fimmtudag. Ég skrifaði hins vegar nokkur minningarorð um Önnu sem ég fékk birt í Morgunblaðinu á þessum degi og er þau að finna hér að neðan. Myndina sem fylgir þessum minningarorðum leyfði ég mér að taka af netinu en mér þykir hún falleg. Hún er frá árinu 2014 og er tekin á útifundi á Austurvelli og var linsunni beint að Önnu, Lúther og baranbarni þeirra. 

Minningarorð mín um um Önnu Atladóttur:  

Þau sem vilja heilbrigðiskerfi fyrir alla óháð efnahag, jafnrétti og jöfnuð á vinnustað og í samfélaginu  almennt, þau sem vilja það besta sem áunnist hefur í alþjóðlegri verkalýðsbaráttu, þau eiga Önnu Atladóttur mikið að þakka. Mér liggur við að segja skuld að gjalda því alla tíð gaf hún öðrum meira en hún þáði. Slíkt var framlag hennar.
Svo lengi sem ég man hefur Anna Atladóttir haldið baráttufána á lofti, áhugi hennar brennandi,  þrautseigan að sama skapi; allt þetta lífið á enda.
Nafn Önnu Atladóttur er samtvinnað sögu verkalýðshreyfingarinnar marga undangengna áratugi. Það eru stór orð en þau eiga fullkomlega rétt á sér. Innan BSRB þar sem við áttum mikið og gott samstarf var hún vakin og sofin að fylgjast með framvindu mála, ekki síst á alþjóðlegum vettvangi. Hún sendi mér iðulega greinar sem henni þóttu athyglisverðar og að loknum fundum og ráðstefnum sem hún sótti innanlands eða á erlendri grundu fyrir hönd samtakanna lét hún ekki staðar numið fyrr en hún hafði komið nýjum fróðleik á framfæri við félaga sína.
Þótt við værum bæði gengin út af starfsvettvangi BSRB höfðum við af og til samband. Það var segin saga að ef Anna taldi þjóðfélagsþróunina leita í rangan farveg eða ómaklega væri veist að einstaklingum eða brotið á starfsstéttum, góður málstaður nyti ekki sannmælis eða verðskuldaðrar athygli, þá mátti vænta símtals frá Önnu Atladóttur að hvetja til dáða.  
Og nú er hún farin. En horfin er hún ekki. Og það á heldur ekki að gerast því arfleifð hennar þarf að lifa.
Mér varð stundum hugsað til þess hve lánsöm við værum að vera í sama liði og Anna Atladóttir. Hreyfing með einstaklinga á borð við hana innanborðs, með alla sína þekkingu, brennandi áhuga og eldmóð, yrði ekki aðuðveldlega sniðgengin. Andstæðingurinn kæmist hreinlega aldrei undan!
Að lokum vil ég nefna það sem mér þótti alla tíð einkennandi fyrir málafylgju Önnu Attladóttur og það var hve velviljuð hún var. Fyrir bragðið var öðru vísi hlustað á hana en flesta aðra. Innst inni fannst öllum, að ég hygg, samherjum jafnt sem andstæðingum, það vera virðingarvert hve málefnalegur málflutningur hennar var og hve augljóst það var að fyrir henni vakti það eitt að vinna samfélagi sínu vel.
Við erum ófá sem munum minnast Önnu Atladóttur með hlýhug, þakklæti og virðingu. 
Ég færi Lúther og allri fjölskyldu þeirra Önnu innilegar samúðar- og saknaðarkveðjur.