Fara í efni

Í KVIKU TILFINNINGANNA

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Biritist í helgarblaði Morgunblaðsins 26.01.14.
Öll gerum við einhvern tímann mistök í starfi.  Enginn er þar undanskilinn. Þess vegna er reynt að skapa vinnuferli sem draga úr líkum á mistökum. Góður vinnustaður er sá sem tekst vel upp í því efni.
Sumir vinnustaðir eru viðkvæmari en aðrir og sumar starfsstéttir sinna verkefnum þar sem mistök eru afdrifaríkari en hjá öðrum.
Augljósasta dæmi um þetta er heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisstarfsmaður sem gerir mistök í starfi getur átt þátt í því að sjúklingur verður örkumla eða jafnvel  lætur lífið. Varla þarf að fjölyrða um þann harm sem slíkt veldur ástvinum þess sem fyrir verður. Sama á við um þann sem er valdur að mistökunum. Það vill stundum gleymast.
Blessunarlega farnast mörgu heilbrigðisstarfsfólki giftusamlega í starfi en þó getur enginn gengið að slíkri gæfu sem vísri. Þess vegna þarf heilbrigðiskerfið stöðugt að íhuga leiðir til að verða sífellt betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum áfallalaust.
En hvað er til ráða þegar þetta tekst ekki og slysin henda? Ég er þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfið eigi þá að taka á mistökunum. Fari svo að mistök þyki svo alvarleg að varði við skaðabótaskyldu þá er það stofnunin sem á að mæta slíku - ekki starfsmaðurinn.
En bjóðast aðrar leiðir? Einn valkost höfum við fyrir sjónum vestur í Bandaríkjunum. Þar leyfa læknar engum manni að leggjast undir skurðarhníf sinn án þess að sá eða sú hafi áður undirritað alls kyns pappíra sem tryggja hag læknisins. Þetta mun vera almenna reglan. Slíkri pappírsgerð sinna herdeildir lögfræðinga en tilvist þeirra í heilbrigðiskerfinu bandaríska er ein ástæða þess að bandaríska heilbrigðiskerfið er eins dýrt og raun ber vitni.
Að sjálfsögðu þarf heilbrigðiskerfið  á aðhaldi að halda - helst stöðugu - og rannsaka þarf í þaula  öll hugsanleg mistök. Við slíka rannsókn kæmi þá í ljós hvenær annars vegar um er að ræða ásetningsbrot einsog dæmi eru um erlendis, og svo hins vegar mannleg mistök. Hin síðari geta verið kerfislæg og rannsókn því leitt í ljós hvað í kerfinu þarf að laga. Þá þurfa að vera strangar siðareglur og viðurlög innan kerfisins ef starfsmenn gerast sekir um mjög vítaverða framgöngu. En mín skoðun er sú að sakamál gegn einstaklingi hljóti að byggja á ásetningi hans um að fremja brot.
Ég spái því að ef við sem eigum undir heilbrigðiskerfið að sækja, gerumst mjög harðdræg gagnvart því muni það snúast til varnar með svipuðum hætti og gerst hefur vestanhafs.
Og hví ætti læknir sem kallað er eftir í flugvél þar sem farþegi hefur orðið fyrir hjartastoppi yfirleitt að gefa sig fram ef hann á það á hættu að verða sóttur til saka fyrir að gera ekki allt nákvæmlega eins og best verður á kosið? Af hverju ætti hann ekki að sitja í sæti sínu og láta lítið fyrir sér fara - eins og við hin?
Þetta breytir ekki því að heilbrigðiskerfi sem bregst sjúklingum ber undanbragðalaust að grípa til ráðstafana og ef mistök hafa verið gerð sem eru þess eðlis að bætur geti dregið úr erfiðleikum,  sársauka og harmi ber að haga lögum og reglum á þann veg að heilbrigðiskerfið standi skil á slíkum bótum.
Þegar þessi mál eru rædd erum við komin að kviku tilfinninganna. Og þær tilfinningar eru á báða bóga, gleymum því aldrei.  Það þýðir ekki að umræðuna eigi að forðast. Þvert á móti þá er hún bráðnauðsynleg.