Fara í efni

Í HJÓLFÖRUM NÍTJÁNDU ALDAR

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.04.18.
Smám saman rennur upp fyrir okkur sú kreppa sem heimurinn er í; hve vanmegna hann er frammi fyrir stríðsátökum og ofbeldi. Árás þriggja NATÓ-ríkja á Sýrland minnir á þetta og þá ekki síður yfirlýsingar stjórnmálamanna í kjölfarið, hér á landi sem annars staðar. „Alþjóðasamfélagið brást því Öryggisráðið náði ekki samkomulagi", segir einn, „þetta var víðbúið", segir forsætisráðherra, og „skiljanlegt" segir utanríkisráðherrann, „því miður erum við ekki komin með nýja stjórnaskrá, annars hefði Alþingi rætt málið", segir stjórnarandstaðan ...  En um eitt eru allir sammála, nú þurfi „alþjóðasamfélagið" að semja.

Um hvað á að semja? Væntanlega framtíð Sýrlands. Og hvaða „alþjóðasamfélag"? Eflaust hið sama og náði ekki saman í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar er sérstaklega horft til Rússa, Bandaríkjamanna, Breta og Frakka og svo náttúrlega til viðbótar Írans, Sádi-Arabíu, Ísraels og Tyrklands en öll þessi ríki koma með beinum og óbeinum hætti að stríðinu í Sýrlandi, eru þátttakendur í því. Og ekki má gleyma ISIS, sem farið hefur með framkvæmdina. Eflaust þykir eðlilegt að stjórnvöld í Sýrlandi fái einnig sæti við samningaborðið en varla Kúrdar eða fulltrúar búsáhaldamótmælenda sem andmæltu Assad forseta fyrir tæpum áratug en var sópað til hliðar þegar ISIS og aðrir ámóta mættu með skriðdreka, sprengjuvörpur og sveðjur.

Og þá höfum við það. Krafan er sem sagt að þetta „alþjóðasamfélag" skuli ráða örlögum Sýrlendinga. Það er þarna sem nítjánda öldin kemur upp í hugann. Við hana kennum við nýlendutímann. Þegar herveldi,  einkum í okkar heimshluta, réðu lögum og lofum um örlög þjóða í drjúgum hluta jarðarkringlunnar. Ráðsmennska þeirra birtist okkur enn þann dag í dag í landamærum ríkja allt frá Indlandskaga og vestur og suður úr. Mið-Austurlönd og nánast öll Afríka er með einföld og þráðbein landamæri; ljóst að hvorki fjöll né fljót, hvað þá menning eða tunga og alls ekki lifandi fólk með óskir og vilja hefur truflað við gerð heimskortsins.

Frægt að endemum í þessu samhengi  er Sykes-Pycot-samkomulagið frá 1916 þar sem gömlu nýlenduveldin, Bretland og Frakkland, með samþykki Rússakeisara, bútuðu niður Ottómanaveldið undir kristalljósakrónunum í London og París. Þaðan séð var veruleikinn svo einfaldur að reglustika nægði sem vinnutæki til að móta heiminn að vild.

En síðan kom í ljós að heimurinn er ekki alveg svona einfaldur, hin fjarlægu fjöll eru ekki blá þegar nær er komið. Þótt Gaddaffi Líbíuforseti hafi án efa verið brjálaður harðstjóri er álitamál hvort hann kemst í hálfkvisti við þá sem „alþjóðasamfélagið" setti til valda í hans stað eftir tíu þúsund loftárásir á Líbíu um árið. Newsweek segir að Líbíustjórn láti gott heita að fram fari þrælasala þar sem flóttafólk sunnar úr Afríku sé falboðið hæstbjóðendum til eignar á uppboðsmörkuðum. Það hefði Gadaffi þó aldrei leyft, segir Newsweek.

En er þá ekkert hægt að gera? Jú, heimurinn þarf að hefja sig upp úr gömlum hjólförum nýlenduhugsunarinnar. Víetnamstríðinu lauk á sínum tima þegar árásarherirnir höfðu sig á brott úr landinu. Af þessu má draga lærdóma. Í öðru lagi þarf að leggja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna niður, því það er valdatæki hernaðarhyggjunnar, reglustika samtímans. NATÓ á líka heima á minjasafni um liðna tíð.

Síðan þarf að lýðræðisvæða Sameinuðu þjóðirnar. Það er hægara sagt en gert en með einhverjum hætti þarf á raunhæfan hátt að mæta áskorun Kofi Annans frá því um síðustu aldamót um að koma til aðstoðar fólki sem níðst er á, hvort sem er af hendi erlendra árásarherja eða af eigin stjórnvöldum. Þessari göfugu hugsun um ábyrgð til að verja hinn veika, „responsibility to protect", eins og það heitir á ensku, var umsvifalaust stolið og hún nýtt í vopnabúri ráðsmanna heimsins og beitt til að efla þeirra eigin völd, setja andstæðinga sína af en halda þeim við völd sem hliðhollir eru.

Það er þörf á byltingu í hugarfari heimsins. Hann þarf að hefja sig upp úr gömlum hjólförum og hugsa upp á nýtt.