Fara í efni

Í HEIMSÓKN HJÁ PETER LENK

Það er margt að sjá við Bodensee vatnið í Þýskalandi. Þar er borgin Konstanz sem að hluta til er í Þýskalandi og hluta til í Sviss. Ekki langt frá er smábærinn Bodman. Þar býr listamaðurinn Peter Lenk sem sameinað hefur í ótrúlega magnað listform höggmyndagerð og ádeiluskopmyndir.

Við, kona mín og tveir þýskir vinir, hittum Peter Lenk sem var svo vinsamlegur að sýna okkur vinnustofu sína og það sem hann var með í smíðum þar.

Peter Lenk.PNGPeter Lenk.PNG

Það er reyndar eðli máls samkvæmt leyndarmál enn sem komið er. Eðli máls samkvæmt, segi ég. Það er svo vegna þess að Peter Lenk hefur haft þann hátt á að bjóða bæjum og borgum myndir án þess að vitað sé hvernig þær komi til með að verða endanlega.

Svo mögnuð og eftirsótt eru þessi listaverk að yfirvöldin þora sjaldnast að hafna boðinu. Stundum sleppur yfirvaldið fyrir horn en oftar en ekki er dauðséð eftir því að hafa tekið boðinu um að þiggja högmynd frá Peter Lenk.

Ástæðan er einföld. Peter Lenk er nefnilega með stjórnmálamenn og einstaklinga úr atvinnu- og fjármálaheimi í sigtinu og þá einkum þá sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þeir einstaklingar eru ófáir. Þegar viðfangsefnið hefur verið valið gerist listamaðurinn mjög óvæginn og skiptir hann engu máli hvar viðkomandi er að finna í litrófi stjórnmálanna – hið sama er látið yfir spillinguna ganga óháð pólitískri kennitölu.

Springer lenk.PNG

Fyrir utan Springer-samsteypuna í Berlín eru ritstjórar Bild Zeitung, stærsta dagblaðs Þýskalands og eigendur komnir upp á vegg gegnt höfuðstöðvunum og höfuðpaurinn, Springer, þar að auki uppá svín – reyndar aftan á svín! Varla mjög smígrandi.

En svo listilega er þetta gert að húmorinn hefur yfirhöndina í huga áhorfandans fremur en það sem Springer er að gera svíninu. Þess vegna kunna flestir vel að meta það sem fyrir augu ber en fórnarlömbin síður! Hef ég þó grun um að þau hafi oftar en ekki unnið fyrir skömm sinni.

Imperia lenk.PNG

Við innsiglinguna í Konstanz er risastór stytta sem nefnist Imperia. Glæsileg og sigurreif gyðja heldur á tveimur nokkuð ræfilslegum körlum, annars vegar páfa og hins vegar keisara, fulltrúum hins veraldlega og hins geistlega valds. Þegar styttan var sett upp varð mikið írafár og krafa um að hún yrði tekin niður. Slíkt leyfði almenningsálitið hins vegar ekki. 

Ég hvet lesendur til að slá Peter Lenk upp í leitarvélum og skoða myndir af sköpunarverkum hans.