Fara í efni

Í BOÐI BSRB


Menningarhátíð BSRB í Munaðarnesi í Borgarfirði tókst með miklum ágætum. Nær tveggja áratuga hefð er komin á þessar meningarhátíðar í þessari stærstu orlofsbyggð bandalagsins en tilefnið er nú sem fyrr opnun myndlistarsýningar sem stendur sumarlangt. Að þessu sinni er það Ingiberg Magnússon sem sýnir verk sín. Þóra Einarsdóttir, óperusöngkona, söng sig inn í hjörtu allra viðstaddra við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Þær voru klappaðar upp og fengu mikið lof. Það gerði líka Einar Már Guðmundsson, rithöfundur sem fór á kostum, mælti ljóð af munni fram, las úr verkum sínum, og talaði við samkomugestina. Í næstu viku kemur út ný bók eftir Einar Má sem heitir Hvítbók. Mér kæmi ekki á óvart að flestir viðstaddra hafi hugsað til þess að ná í hana volga úr prentsmiðjunni þegar hún kemur í bókahillurnar. Að lokinni dagskrá bauð BSRB upp á veitingar sem voru listilega framreiddar af Stefaníu Óttarsdóttur, sem nú hefur tekið við veitingarekstrinum í Munaðarnesi. Hafi hún þökk fyrir sitt frábæra framtak! Svo og allir sem lögðu hönd á plóg til þess að gera þessa stund eftirminnilega!

Frábær flutningur. Þóra syngur við undirleik Önnu Guðnýjar.


Einar Már sýndi allar sínar bestu hliðar og fangaði salinn á svipstundu.

 


Myndlistarmaðurinn Ingiberg Magnússon sagði frá viðfangsefnum sínum.

Listamennirnir ásamt undirrituðum.