Fara í efni

Í ÁSTARSAMBANDI VIÐ VALDIÐ


Eftir að ég komst af unglingsaldri - til vits og þroska einsog það heitir - hef ég hallast að félagslegum sjónarmiðum í pólitíkinni. Var ég - og er stundum enn  - kallaður kommi.  Aldrei hefur mér þótt sú nafngift slæm þegar í blönduna er settur - og þetta er algert grundvallaratriði - John Stuart Mill eða aðrir ámóta sem leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og hugmyndir anarkista um andstöðu við valdstjórn. Hvort tveggja verður að vera í kommablöndunni til að mér finnist hún boðleg.

Hvor væri í Gúlaginu?

Ég minnist þess að forstjóri stofnunar sem ég vann hjá skensaði mig einhverju sinni yfir einhverju sem var að gerast austur í Sovét, "hjá vinum þínum þar", einsog hann orðaði það. Ég var ekki óvanur svona tali frá valdsmönnum sem ég gagnrýndi en ég man að þessu sinni kváði ég við og spurði viðkomandi hvor honum þætti líklegri, ég eða hann, ef við værum báðir búsettir í Sovétríkjunum, að vera Gúlag fangi og hvor væri líklegri til að vera forstjóri hjá ríkinu. Forstjórinn horfði á mig augnaráði sem gaf til kynna að hann skildi að sennilega væri staðan þessi, ég í Síberíu en hann á forstjórastólnum. Þetta var á tíma Kalda stríðsins.

Róbert Trausti minnir á gamla tíma

Þessi tími kom upp í hugann þegar ég las athugasemd sem Róbert Trausti Árnason skrifaði á eyjan.is í gær sem viðbrögð við pistli hér á síðunni um misbeitingu atvinnurekendavalds. Í pistil minn hafði verið vitnað á téðum netmiðli og ýmsir síðan gert athugsemdir, þar á meðal Róbert Trausti. Hann sagði m.a. í athugasemd sinni: "Ögmundur Jónasson á vissulega ekki að víkja frá sinni sannfæringu. Fyrir honum er lífið herferð gegn okkur "Hvítliðunum". Hremming Íslands er hvalreki fyrir hann. Hreinn hvalreki. Ögmundur, eins og bolsévíkinn Lenín, kemur yfir okkur, eins og endurgjald fyrir drýgð afbrot....Tíðarandinn er...heiftugum Ögmundi og fámennri fylgisveit hans ...í hag.... Bylting Ögmundar var ...var búsáhaldabylting og hún kafnaði í fæðingu og er dauð. Nú þarf Ögmundur að finna handhægari refsivönd.Nú á að beita á okkur "Hvítliðana" meðölum, sem duga. Mannúaðrleysi á nú að hámarka stéttavitund, öreigastaðfestu og villimennsku byltingaráhuga.Ögmundur! Leiddu fram hrottasveit þína!" (sjá hér:  http://eyjan.is/blog/2009/11/11/ogmundur-sa-misnotar-stodugleikasattmalann-fyrir-vildarvini-launafolk-skattlagt-frekar-en-storidja/  )
Má hér greina eftirsjá eftir liðnum tíma? Tíma þegar hægt var að setja alla í lítil áróðursbox og afgreiða þá í snyrtilegri klisju, jafnvel fráleitri einsog þessari?

Ólína og valdbeitingin

Ólína er óneitanlega heimspekilegri en Róbert Trausti Árnason (sem á reyndar til betri spretti á ritvelli en framangreind önugheit). Hún fjallar um valdið og kemur auga á það sem alltof fáir sjá: Að vald er verðugt umhugsunarefni, ekki bara í sögubókum heldur í samtímanum, í öllu mannlegu samfélagi: "Valdið er skrítin skepna, vald í stjórnmálum. Stjórnmálamenn þrá valdið, en oftar en ekki er því misbeitt. Því sem stjórnmálamenn þrá svo heitt geta þeir ekki beitt, nema afar sparlega...Er það ekki misbeiting valds að vilja taka ákvarðanir fyrir aðra, eða ráða yfir fólki?"
Ólína beinir spurningu til mín í lok pistils síns um hvað ég muni gera nú. Þar er vísað til Icesave. Ég vil svara á almennan hátt. Ég mun áfram berjast gegn hvers kyns valdbeitingu. Eitt er víst að hvernig sem ég greiði atkvæði um Icesave verður það ekki á grundvelli valdbeitingar, heldur á grundvelli þess sem ég tel réttast og best að gera.

Að þora...

Það er hægt að beita valdi með ýmsum hætti - til dæmis með þrýstingi í fjölmiðlum. Ég þekki til þingmanna sem eru andvígir Icesave, hafa gagnrýnt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar harðlega, ekkert síður en ég, en ætla engu að síður að styðja þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir Alþingi. Það gera þeir að yfirveguðu ráði eftir að hafa metið alla kosti og galla í stöðunni. Líka hinn augljósa: Að öðru vísi samsett ríkisstjórn hefði leitt til svipaðrar niðurstöðu. Fyrir þessum einstaklingum ber ég meiri virðingu en fyrir hinum sem alltaf gera það sem auðveldast er í stöðunni hverju sinni.
Sjá pistil Ólínu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/valdbeitingar-menn      

l