Fara í efni

HVORT ER MIKILVÆGARA PENINGAR EÐA FÓLK?

Birtist í DV 19.01.07
Miklar umræður fara nú fram á vettvangi stjórnmálanna um málefni Byrgisins. Ljóst er að stjórnvöld hafa fullkomlega brugðist í því máli. Fram hefur komið að á árinu 2002 var birt skýrsla með varnaðarorðum um Byrgið og fjárveitingar til þess. Hvers vegna í ósköpunum brugðust ráðherrar sem ábyrgir eru fyrir málaflokknum og fjárveitingum ekki þá þegar við?  Það er hins vegar ekki nóg að beina gagnrýni að ráðherrum. Stjórnsýslan hefur einnig brugðist, svo og Alþingi sem hefur flotið sofandi að feigðarósi. Þar á bæ hafa menn látið undir höfuð leggjast að krefjast þess að gerðar yrðu faglegar kröfur til meðferðaraðila sem fjármagna starfsemi sína með almannafé.
Alþingismenn segja sjálfum sér til málsbóta að þeir hafi verið „í góðri trú“. Byrgið hafi fengið meðmæli góðra og gegnra einstaklinga sem aftur hafi talið að á vegum þess væri unnið gott starf. Sjálfur var ég í hópi þessara þingmanna. Hins vegar hafa smám saman verið að renna á mig tvær grímur varðandi fjárveitingar af þessu tagi og flutti ég þingmál á þingárinu 2003-4 um að fram fari könnun „á forvarna- og meðferðarúrræðum fyrir áfengis- og vímuefnaneytendursem miði að því að ná betri árangri með markvissara skipulagi og virkara eftirliti.

Vísað út á gaddinn

Loks eftir að fram komu ásakanir opinberlega um kynferðislega misnotkun innan veggja Byrgisins rumskuðu stjórnvöld og hófst þá fyrir alvöru umræða um málefnið. En hvert hefur hún beinst fyrst og fremst? Hún hefur fyrst og síðast snúist um krónur og aura. Mönnum þykir afleitt hvernig misfarið hafi verið með almannafé. Peningamálin eru sett í rannsókn og saksóknari stígur fram á völlinn. Allt er þetta fullkomlega eðlilegt. En hvað með hina mannlegu hlið? Stendur virkilega ekki til að rannsaka hana? Þá misnotkun og ofbeldi sem fjöldi fólks kann að hafa sætt í stofnun sem verið hefur undir handarjaðri hins opinbera? Ætla lögregluyfirvöld ekkert að aðhafast varðandi þennan þátt málsins sem þó hlýtur að teljast langalvarlegastur? Einnig hlýtur að vekja athygli forgangsröðun félagsmálaráðherra að því leyti að í stað þess að setja utanaðkomandi tilsjónarmann yfir Byrgið þegar hinar alvarlegu ásakanir komu fram og fullvissa vistmenn um að þeim yrði búið öryggi á meðan framtíðarlausn væri í mótun var engu slíku til að dreifa. Aðeins peningar komust að, ekki fólkið. Því var einfaldlega vísað út á gaddinn.

Varnarlaust gagnvart umhverfinu

Síðan er hitt: Hér eftir verður að gera þá kröfu að þá aðeins verði fjármunum veitt til meðferðaraðila eftir að áður hefur farið fram ítarleg rannsókn á hæfi þeirra og fagmennsku til að sinna slíkum verkefnum. Við megum ekki gleyma því að um er að ræða meðferð fyrir sársjúkt fólk, einstaklinga sem eru í mikilli neyð, háðir vímuefnum og oft án húsnæðis. Þetta fólk er varnarlaust gagnvart umhverfi sínu. Það er ábyrgðarhluti hvernig að því er staðið að fela það í hendur stofnunum eða samtökum.
Enda þótt kristilegir söfnuðir á borð við Samhjálp og aðra ámóta aðila hafi unnið þarft starf þá er kominn tími til að spyrja hvort það sé rétt að fela trúarsöfnuðum að annast á vegum hins opinbera meðferð vímuefnasjúklinga. Finnst okkur rétt að trúarhópar sinni þessum verkefnum? Er alveg sama hvaða trúarsöfnuðir taki þau að sér? Ef ekki, eftir hvaða mælikvarða ætlum við þá að gera upp á milli trúfélaga?
Þessi spurning gerist æ áleitnari einfaldlega vegna þess að Hvítasunnusöfnuðurinn er nú að verða stærsti verktaki á vegum ríkis og Reykjavíkurborgar á þessu sviði. Ríki og borg eru markvisst að draga saman eigin segl um leið og þau trúvæða þessa starfsemi. Þannig var meðferðarheimilinu í Gunnarsholti lokað svo dæmi sé tekið, gistiheimili í fyrir heimilslausa í Reykjavík að sama skapi en í báðum tilvikum var vistmönnum beint inn í faðm trúfélaga!  
Ég vil leggja ríka áherslu á að ég er engan veginn að gera lítið úr starfi trúfélaga sem sinnt hafa meðferðarstarfi og ég geri mér fullvel grein fyrir því sem þau hafa gert vel. En þegar um er að ræða að ríki eða sveitarfélög finni athvarf og meðferðarúrræði fyrir veika einstaklinga, fólk sem er fullkomlega varnarlaust og iðulega ekki sjálfrátt gerða sinna, hlýtur að vera gerð krafa um að þeir sem slík verkefni fá í hendur séu óvilhallir, bæði í stjórnmálalegu og trúarlegu tilliti.