Fara í efni

HVERS VEGNA ÞURFTI NAFNLAUSA ÁBENDINGU?


Hún var ekki löng fréttin í hádegisfréttum RÚV ohf í dag að Kaupþing kunni að hafa flutt hundrað milljarða úr landi og inn á reikninga vildarvina erlendis í tengslum við bankahrunið í haust. Efnahagsbrotadeild lögreglunnar væri að kanna málið „niður í kjölinn" . Tekið var fram að málið væri þó ekki í rannsókn! Skilanefnd Kaupþings banka væri einnig að skoða málið, sagði RÚV.

En hvers vegna lögreglan? Jú, hún hafði fengið nafnlausa ábendingu! Ha? Þurfti nafnalausa ábendingu? Er ekki búið að vera að rannsaka þessi mál? Og það fyrir okkar hönd? Okkar, sem eigum að borga brúsann? Hvað er eiginlega að gerast? Eru lausatökin virkilega svona hrikaleg? Þurfti nafnlausa ábendingu til að farið væri að skoða peningaflutning af þessari stærðargráðu? Hvar hefur Fjármálaeftirlitið haldið sig, skilanefndin, ríkisstjórnin? Ráðleysið er greinilega algert. Það er að segja af hálfu þeirra sem eiga að passa upp á okkar hag. Skyldi hið sama eiga við um gripdeildarmenn?

Þetta gerist á sama tíma og ríkisstjórnin sker niður í almannatryggingum, við fatlaða, við skólakerfið, heilbrigðiskerfið. Þetta gerist líka á sama tíma og verið er að hlaða skuldum og sköttum á bakið á launaþjóðinni langt fram í tímann.  Á sama tíma og byrjað er að skerða kjörin hjá launalágu póstburðarfólki. Einnig það kom fram í hádegsifréttum RÚV ohf.

Þetta er samhengið. Þau sem völd eru að óförum okkar kunna að hafa skotið undan sem nemur þriðjungi af fjárlögum. Bara si svona. Málið skoðað en engin alvöru rannsókn! Stöð 2 hefur síðan eftir Fjármálaeftirlitinu að þar hafi menn haft vitneskju um þessa fjármagnsflutninga en það hafi verið svo mikið að gera að stofnunin hafi ekki komist í að rannsaka málið! Var það þess vegna sem þurfti nafnlausa ábendingu til að lögreglan tæki á sig rögg?  

Nú þarf í alvöru að taka til hendinni. Þetta gengur ekki lengur. Allar upplýsingar upp á borðið! Nýtt fólk í rannsóknarvinnu! Hvers vegna er ekki náð í margreynda bankaeftirlitsmenn frá Norðurlöndum? Þar hafa menn reynsluna. Og eru ótengdir inn í kviku íslenskrar spillingar. Hvers vegna er þetta ekki gert? Hverja er verið að verja?
Í