Fara í efni

HVERS VEGNA ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU UM STÓRIÐJUSTEFNUNA?

Birtist í Morgunblaðinu 18.02.06.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að samhliða sveitarstjórnarkosningunum 27. maí næstkæmandi verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt verði hvort þjóðin vilji áframhaldandi stórfellda uppbyggingu stóriðju í landinu næstu árin eða að allar framkvæmdir af því tagi verði settar í biðstöðu að minnsta kosti til ársins 2012.
Í greinargerð með tillögunni er minnt á þær miklu umræður og skoðanaskipti sem verið hafa um ýmislegt sem stóriðjunni tengist, loftmengun, raforkuverð, þjóðhagslega arðsemi og áhrifin á efnahagslegt sjálfsforræði landsmanna, náttúruspjöll og umhverfisáhrif, auk áhrifanna á ímynd landsins og annað atvinnulíf. Hart og mikið hefur verið deilt um þessi efni og ljóst að mörgum yrði það kærkomið að geta látið hug sinn í ljósi í almennri atkvæðagreiðslu um framhald mála. Það væri í fullu samræmi við vaxandi áhuga í samfélaginu á lýðræðislegum leikreglum og auknum möguleikum almennings til áhrifa á þróun mála.
Þá má benda á að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu yrði efnt til mikillar umræðu um málefnið og þar með varpað ljósi á ýmsar hliðar þess. Slíkt er líklegt til þess að stuðla að niðurstöðum sem ekki einvörðungu yrðu lýðræðislegri heldur einnig upplýstari og ef að líkum lætur einnig skynsamlegri en ella.

Við stöndum frammi fyrir valkostum

Uppbygging stóriðju hefur yfirskyggt allt annað í atvinnustefnu stjórnvalda á undanförnum árum. Æ fleiri telja brýnt að gera grundvallarbreytingar á þeirri stefnu, svo að leggja megi grunn að uppbyggingu og framförum í íslensku samfélagi á traustum og varanlegum forsendum. Atvinnulíf verður að hvíla á sjálfbærum grunni eigi uppbygging þess að standast til langframa. Reynsla seinustu ára sýnir að þróttmikil nýsköpun í atvinnulífi og lítil og meðalstór fyrirtæki hafa mesta vaxtarmöguleika, skapa flest störf og skila þjóðarbúinu mestu. Með því að styðja slíka atvinnuþróun má auka útflutningstekjur þjóðarinnar og stuðla að hagvexti án þess að gengið sé á höfuðstól náttúrunnar.
Fjölmargar ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda stóriðjustefnu og tilheyrandi bygging stórvirkjana verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Einmitt nú eru slík tímamót að rík ástæða er til að staldra við og kalla eftir víðtæku samráði um það hvort telja megi skynsamlegt og ráðlegt að auka framleiðslu áls í Straumsvík um 150 % og byggja að auki tvö ný álver,hvort í sínum landshlutanum, með þeirri umfangsmiklu orkuöflun sem slík uppbygging kallaði á.

Ef ekki nú, hvenær þá?

Úr öllum stjórnmálaflokkum heyrast þær raddir að réttmætt kunni að vera að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um grundvallarmál. Stóriðjustefnan snertir sem áður segir grundvallarmál í fleira en einu tilliti. Hún snýr að alþjóðlegum skuldbindingum um umhverfismál og að sjálfsögðu byggir hún á stórfelldu og varanlegu inngripi í íslenska náttúru. Þá eru áhrifin á atvinnu- og efnahagslíf ótvíræð. Með öðrum orðum, stóriðjustefnan snýst um framtíð lands og þjóðar í bókstaflegri merkingu; hvernig Ísland við viljum sjá og hvernig Íslands við viljum njóta á næstu árum og áratugum.
Ef ekki þykir ástæða til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta grundvallarefni, hljótum við að spyrja, hvenær þá sé rétt að þjóðin taki afstöðu beint og milliliðalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu?