Fara í efni

HVERS VEGNA ÞEGIR MORGUNBLAÐIÐ? HVERS VEGNA ÞEGIR FRÉTTABLAÐIÐ...?

Fyrir fáeinum dögum vísaði ég hér á síðunni í afar athyglisverða könnun sem vefritið MÚRINN hefur gengist fyrir á auglýsingakostnaði stjórnmálaflokkanna fyrir komandi kosningar. Sannast sagna hélt ég að þessi athugun múraranna yrði stórfrétt. Tengslin á milli peninga og stjórnmála eru að sjálfsögðu pólitísk, þau snerta meira að segja kjarnann í lýðræðinu. Peningarnir geta nefnilega drepið lýðræðið. Andstæðan við lýðræðið er ekki bara einræði heldur einnig auðvald; vald þeirra sem hafa fjármagnið með höndum. Barátta á flettiskiltum, í heilsíðuauglýsingum blaða og tímarita og í útvarps- og sjónvarpsauglýsingatímum kostar mikla fjármuni. Hætt er við því að þeir sem veita stjórnmálaflokkum óheftan aðgang að þessum auglýsingaheimi með miklum fjáraustri eigi síðar meir hönk upp í bakið á þeim. Þegar það gerist deyr lýðræðið.
Hvað er til ráða? Fyrst og síðast þarf að opna bókhald þeirra flokka sem ekki hafa farið að dæmi VG um að gera slíkt. Í öðru lagi þarf aðhald af hálfu fjölmiðlanna. Fjölmiðlafólk þarf að halda umræðu um þessi mál stöðugt í brennidepli og fylgjast með fjáraustrinum. Það er þetta sem MÚRINN hefur reynt að gera. En viti menn, það er eins og fjölmiðlarnir reyni að þegja upplýsingar um þessi efni í hel, samanber lesendabréf frá Sigurði, sem síðunni hefur borist. Eru þetta pólitískir hagsmunir eða peningalegir? Má ekki styggja tiltekna stjórnmálaflokka eða auglýsingakúnna? Hvers vegna þegir Morgunblaðið? Hvers vegna þegir Fréttablaðið?. Hvers vegna þegir Ríkisútvarpið? Hvers vegna þegja 365 fjölmiðlar?
Er þetta ef til vill bara sofandaháttur? Ég vona að svo sé því þá er auðvelt að gera á þessu bragarbót.

HÉR má finna upplýsingarnar.