Fara í efni

Hvers vegna kærir ekki Mörður?

All undarleg umræða fór fram á Alþingi í dag. Mörður Árnason alþingismaður spurði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hvað ráðuneytið ætlaði að aðhafast vegna brota á lögum um áfengisauglýsingar. Mörður kvað ýmsa á því máli að breyta bæri lögum um bann við áfengisauglýsingum. Ástæða væri til að taka þá umræðu og leiða hana til lykta. Staðreyndin væri hins vegar sú, að áfengisauglýsingar væru bannaðar og vildi hann vita hvað dómsmálaráðherra ætlaði að aðhafast vegna lögbrotanna. Björn Bjaranson virtist koma af fjöllum, hvorki heyrt né séð þessar áfengisauglýsingar, og ef Mörður Árnason hefði áhyggjur af meintu lögbroti, hvers vegna í ósköpunum sendi hann þá ekki inn ákæru?
Þjóðin hefur fylgst með óskammfeilnum og óábyrgum vinnubrögðum bjórframleiðenda, sem skirrast ekki við að skáskjóta sér á bak við lagabókstafinn og grafa þannig undan landslögum. Áhöld eru þó um hvor aðilinn er óábyrgari, bjórframleiðandinn eða dómsmálaráðherrann, sem firrir sig allri ábyrgð í þessu máli. Lögreglan stöðvar mann fyrir hraðakstur vegna þess að hann brýtur lög sem gilda um leyfilegan aksturshraða, en þegar bjórframleiðendur brjóta auglýsingalöggjöfina gildir öðru máli. Gæti það verið vegna þess að þá eiga í hlut viðhlæjendur í sama klúbbi?
Sjálfur er ég eindregið á móti áfengisauglýsingum. Svo réð ég af málflutningi Marðar Árnasonar að hann væri einnig á því máli og ég er sammála honum um að ef dómsmálaráðherrann ætlar ekki að framfylgja þeirri löggjöf sem hann er þó ábyrgur fyrir, þá á hann að beita sér fyrir því að breyta lögum. Það væri nokkuð sem við tækjumst á um í þinginu. Slíkt myndi ég þó virða, því með því móti yrði gengið hreint til verks.