Fara í efni

HVERS VEGNA ER BJÓÐENDUM Í SÍMANN MISMUNAÐ?

Það ætlar ekki að ganga átakalaust fyrir ríkisstjórnina að þrengja eignarhaldið á Símanum; koma honum úr almennri eign þjóðarinnar og í hendur á hluthöfum á markaði. Pólitískir skraddarar ríkisstjórnarinnar – í hinni margrómuðu einkavæðingarnefnd - sitja nú við að sauma mynstrið sem nota á við söluna. Þetta virðist ætla að verða bútasaumur því ekki er annað að sjá en eitt mynstur taki við af öðru. Fyrst var látið í veðri vaka að í einu og öllu yrði farið að ráðleggingum  ráðgjafafyrirtækisins Morgan Stanley um söluaðferðirnar. Síðar kom í ljós að það reyndist ekki rétt – í besta falli hálfsannleikur. Síðan var okkur sagt að enginn fengi að bjóða ef hann tengdist samkeppnisaðilum Símans. Í samræmi við þetta var frá því skýrt að Kögun hf. hefði verið hafnað sem hugsanlegum bjóðanda, vegna slíkra eignatengsla. En viti menn, í frétt sem  birtist í Morgunblaðinu í dag er svo að skilja að þetta hafi ekki átt við um alla því nú er okkur sagt að fyrri bjóðendur muni eiga þess kost að breyta eigin skipulagi hafi þeir ekki staðist skilyrðin. Það á með öðrum orðum að breyta reglunum eftir á fyrir þá. Eftir stendur að hinum var hafnað fyrir að standast ekki þessi sömu skilyrði! (sjá frétt Mbl.: http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1139965 )

Hér gæti Burðarás t.d. átt í hlut  (fyrirtækjasamsteypa sem ásælist Símann) en samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er sú samsteypa of tengd Og Vodafone fyrir smekk einkavæðingarnefndar. Í umræddri frétt Viðskiptablaðsins kemur fram um hvílíkan frumskóg eignatengsla er að fara vilji menn kortleggja íslenskt viðskiptalíf (http://www.vb.is/forsidur/forsida_05_39.pdf). Hitt er þó deginum ljósara að í þessum frumskógi eru ekki öll dýrin vinir og sum dýrin þóknanlegri en önnur.

Þegar þingflokkur VG lagði fram frumvarp á sínum tíma um dreift eignarhald á bönkum, var því svarað til af hálfu stjórnarmeirihlutans að slíkt væri útilokað því á eftirmarkaði væri ekki hægt að fylgja málum eftir. Ef þetta var rétt ætti slíkt  væntanlega einnig við um símafyrirtæki þegar til lengri tíma er litið og við skulum ekki gleyma að hér skal ekki tjaldað til einnar nætur.

Í framhaldinu vakna sömu spurningar og í tengslum við sölu bankanna. Hvers vegna eru hlutabréfin ekki einfaldlega boðin hæstbjóðanda til kaups?  Hvers vegna hinn pólitíska klæðskerasaum? Gæti frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins vinsamlegast svarað þeirri spurningu.