Fara í efni

HVERS VEGNA EKKI FYRSTA FRÉTT?


Í fjölmiðlum í dag eru fréttir af svikamálum gærdagsins. Kyrrsetning eigna og málaferli. Vissulega fréttnæmir atburðir. Svikamál samtímans eiga nú sem fyrr erfitt uppdráttar í fjölmiðlum. 

Sagt er frá klofningi í nefnd sem fjallar um lögmæti þess að erlent fyrirtæki, Magma Energy Sweden,  kaupi þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og öðlist ráðstöfunarrétt á orku í iðrum jarðar í heilum landshluta. Hvers vegna klofnaði nefndin? Hvað um lögfræðiálit þar sem lögmæti kaupanna er véfengt? Hvers vegna var sjónarhorn nefndarinnar eins þröngt og raun ber vitni þrátt fyrir lagafyrirmæli um annað?  Lítið sem ekkert er um þetta rætt í fréttatímum helstu fjölmiðla landsins.

Íslenskur maður, Teitur Atlason, upplýsir að Magma Energy Sweden er svikasjónhverfing. Hvar er frá þessu greint í fjölmiðlum? Lítið sem ekkert er um þetta rætt í fréttatímum helstu fjölmiðla landsins.

Fram hefur komið að ríkisstjórnin hefur lagalegan rétt til þess að stöðva þessi kaup enda brögð í tafli. Lítið sem ekkert er um þetta rætt í fréttatímum helstu fjölmiðla landsins.

Þorleifur Gunnlaugsson spyr ráðherra VG hvað þeir hyggist gera með samþykkt Flokksráðs VG þar sem þess var krafist að undið yrði ofan af kaupum Magma á HS Orku og tryggð yrðu yfirráð yfir orkuauðlindunum og helstu orkufyrirtækjum landsins.  Lítið sem ekkert er um þetta rætt í fréttatímum helstu fjölmiðla landsins.

Því hefur verið haldið fram að með kaupum Magma Energy á HS Orku komi gjaldeyrir inn til landsins. En hversu mikill gjaldeyrir?  Gæti verið um kúlulánabókhaldsbrellur í anda 2007 að ræða? Lítið sem ekkert er um þetta rætt í fréttatímum helstu fjölmiðla landsins.

Nú sem fyrr er það undantekningin sem sannar regluna. Vefmiðillinn eyjan.is  státar af frábærum pistlum Láru Hönnu Einarsdóttur. Þar er þessu máli gerð frábær skil (og ekki í fyrsta skipti), m.a. rannsóknarvinnu Teits Atlasonar.: http://blog.eyjan.is/larahanna/
Teitur bloggar á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2010/7/9/magma-energy-sweden-skuffufyrirtaeki-med-enga-starfsemi/
Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG hefur aldrei látið deigan síga í þessari baráttu og birti hann í gær grein hér á síðunni um þetta efni þar sem hann beinir spurningum til ríkisstjórnarinnar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thorleifur-gunnlaugsson-skrifar-rikisstjornin-og-magma-energy

Að lokum: Er baráttan gegn Magma Energy Sweden vegna sviksemi fyrirtækisins einvörðungu? Nei, en sviksemin ein er nægilega ástæða til að rifta kaupunum. Hitt er morgunljóst í mínum huga að orkuauðlindir verða ekki nægilega tryggðar sem þjóðareign ef ráðstöfunarrétturinn er með þeim hætti sem nú er. Fráleitt er annað en að stærstu orkufyrirtækin verði í almannaeign. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gefa frá okkur mjólkurkýrnar? Þegar það er gert - og í ofanálag í hendur - loddara, þá verður mér spurn: Hvers vegna er þetta ekki fyrsta frétt?