Fara í efni

HVERS VEGNA EKKI ERLENDUR FRÉTTASKÝRINGAÞÁTTUR Í RÚV-SJÓNVARPI?


Morðið á Benazir Bhúttó í Pakistan hefur, einsog við mátti búast, vakið heimsathygli. Hinn gamalreyndi fréttamaður og fréttaskýrandi, Bogi Ágústsson, var mættur á skjáinn í fréttatíma RÚV í kvöld með umfjöllun um atburðinn og líklegar afleiðingar. Prýðilegt.
En það á eftir að botna fréttina. Slíkt verður aðeins gert í fréttaskýringaþætti. Hvers vegna eru engir erlendir fréttaskýringaþættir í RÚV ohf? Sú var tíðin að slíkir þættir voru vikulega. Bogi Ágústsson var einn þeirra sem stýrðu slíkum þáttum. Hvers vegna ósköpunum er honum ekki fengið slíkt verkefni nú? Er metnaður RÚV ohf minni en var hjá Ríkisútvarpinu fyrir tuttugu árum? Finnst stjórnendum RÚV ohf þeir vera lausir allra mála með því að hafa Kastljós-þátt eftir fréttatíma á virkum dögum? Þar er vissulega oft að finna fréttatengt efni. En þegar ég kalla eftir fréttaskýringaþáttum er ég að horfa til annars konar dagskrárgerðar, þátta þar sem virkilega er kafað í málefnin en ekki um að ræða blöndu af skemmtun og spjalli sem vissulega getur verið góðra gjalda verð sem slík.
Erlendar fréttaskýringar hafa verið stórlega vanræktar í RÚV í langan tíma. Það heyrir til undantekninga að við fáum í Sjónvarpinu fréttir á dýptina um erlend málefni. Á undanförnum áratugum hafa staðið hörð, stundum blóðug, átök millum ríkra þjóða og snauðra. Þar hafa Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn komið mjög við sögu. Við höfum komið að stjórn þessara stofnana, íslenskir utanríkisráðherrar hafa haldið þar innblásnar ræður, margar hverjar hrikalegar! Hvenær hafa íslenskir ráðamenn verið látnir svara fyrir pólitíska ábyrgð sína í stjórnum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?  Margoft hef ég tekið málflutning íslenskra ráðamanna  á erlendri grundu upp á þingi en ætíð talað fyrir daufum eyrum. Fréttaskýringaþáttur hefði alla vega skapað vettvanginn. Hve mikil umræða hefur orðið í Sjónvarpinu  um GATS- samningana; samninga sem skipta okkur og heiminn allan miklu máli; höfum við fengið fréttir af þeirri baráttu sem alþýða manna hefur háð gegn einkavæðingar auðvaldinu í Rómönsku Ameríku? Það er ekki fyrr en þessi barátta hefur leitt til þess að hin róttæku öfl hafa komist til valda - í Venezuela, Bolivíu, Equador, Argentínu og Brasílíu (mis-róttæk öfl að vísu) -  að menn fara að ranka við sér á íslenskum fréttastofum. Fréttaskýringaþáttur í Sjónvarpinu hefði aftur skapað vettvanginn. Það hefur Spegill Útvarpsins margsannað.
Hve lengi ætlar Sjónvarpið að vanrækja fréttaskýringar og þá sérstaklega hinar erlendu?