Fara í efni

HVERS VEGNA ALÞINGISRÆÐURNAR VORU BETRI Á 19. ÖLD

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.10.16.
Ég held að ekki hafi verið fluttar margar lélegar ræður á Alþingi á nítjándu öld og að hið sama hafi átt við um fyrstu áratugi hinnar tuttugustu aldar. Skýringin er margþætt. Margir orðsnillingar voru á þingi á þessum tíma og síðan er það hitt hvort menn kunni að hafa vandað sig betur en síðar varð, því þeir hafi borið meiri virðingu fyrir „orðinu", hinu talaða og þá ekki síður hinu skrifaða.

Og það er náttúrlega mergurinn málsins. Hið talaða orð var skrifað. Ræður, grundvallarræðurnar, sem fluttar voru á Alþingi á fyrri tíð voru flestar skrifaðar frá orði til orðs, framtíðarsýn eða úthugsaðar vangaveltur um þau mál sem brunnu á samtímanum.

Síðan líður tíminn. Dagblöð taka við af mánaðar- og vikuritum, útvarpið opnar okkar leið inn í þingsalinn og síðan sjónvarpið. Nú er meira að segja hægt að fylgjast með því sem er að gerast í sálarkirnum einstakra þingmanna sem „snappa" úr sætum sínum. Allt gerist nú í augnablikinu.

Tæknin breytir innihaldi þess sem við tökum okkur fyrir hendur. Á níunda áratugnum var ég fréttamaður Sjónvarpsins og upplifði þá mikið breytingaskeið.  Í upphafi þurftum við, sem sinntum erlendum fréttum, að reiða okkur á flugsamgöngur. Fengum við fréttamyndir tvisvar til þrisvar sinnum í viku hverri og mikill spenningur að sjá hvað væri í pakkanum hverju sinni. Flestar voru fréttirnar orðnar úreltar en nýttust engu að síður stundum í fréttaskýringum þar sem grafist var fyrir um orsakir og afleiðingar atburða.

Svo kom gervihnötturinn sem gerði okkur fært að sýna lestarslys á Spáni stuttu eftir atburðinn og örlagaríkustu viðburði var hægt að senda út beint. Við þessar aðstæður urðu þeir ráðandi í heimi fjölmiðlunar, sem höfðu hraðann á valdi sínu. Hinn innlendi fréttaskýrandi sem rýndi í blöð og tímarit og beið eftir pakkanum sínum vék til hliðar.

Gott eða slæmt? Hvorugt, allt eftir því hvernig við vinnum úr málum og nýtum okkur þá stórkostlegu möguleika sem ný tækni veitir okkur. Eitt þarf ekki að útiloka annað.

Fyrir stuttu sótti ég athyglisverða ráðstefnu þar sem fjallað var um það með hvaða hætti stjórnmálin gætu undirbúið sig undir tæknibreytingar framtíðarinnar. Menn yrðu að gera sér grein fyrir því að ekki dygði að rýna í eigin samtíð, telja sig sjá þar breytingar, bregða síðan á þær stækkunargleri og magna  upp, og ætla að þar með viti þeir hvað framtíðin bæri skauti sér. Framtíðin væri ekki nútíðin mögnuð upp, gera þyrfti ráð fyrir eðlisbreytingum sem færðu okkur viðfangsefni framtíðarinnar. Þessa dagana, sagði einn fyrirlesara, ættum við að ræða erfðahannaðar manneskjur daginn út og daginn inn og öll þau lagalegu og siðferðilegu álitamál sem fylgdu erfðatækninni.

En þetta er útúrdúr. Ekki þó alveg. Ég er nefnilega að reyna að finna afsökun fyrir þingmenn samtímans, að þeir skuli ekki gera grein fyrir hugðarefnum sínum á eins fallegan og vandaðan hátt og forverar okkar gerðu og að sú eðlisbreyting hafi orðið á störfum okkar að yfirvegaðar yfirlýsingar hafi breyst í lifandi umræðu augnabliksins.

En við þurfum að læra að nýta okkur kosti tækninnar án þess að það verði á kostnað innihalds og gæða. Ég er með tillögu: Fjölmiðlar dragi úr málæðismælingum og skýringarlausum tölfræðiupplýsingum og beini sjónum þess í stað að innihaldi. Alþingismenn fyrir sitt leyti minnist þess að þótt Alþingi eigi sér merka sögu og hlutverk þá verður sú stofnun  náttúrlega aldrei betri en þeir sem þar sitja.