Fara í efni

HVERNIG VÆRI AÐ SENDA KÖFUNARLEIÐANGUR Í FINNAFJÖRÐ?

Spjallað var um Vestnorrænaráðið í útvarpi í morgum. Það var fróðleg og ágæt umræða þeirra morgunhana Óðins Jónssonar og Björns Þorlákssonar við þingmennina Bryndísi Haraldsdóttur og Guðjón Brjánsson.  

Inn í umræðurnar fléttaðist Finnafjörður og könnun/áform(?) um stórskipahöfn þar. Þetta nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar, sagði sjálfstæðiskonan Brynhildur. Þáttastjórnendur sögðu þetta vera spennandi mál og vísuðu til samstarfs við stjórnendur hafnanna í Bremerhaven.

Þessa umræðu verður að botna. Hvað er það sem ríkisstjórnin styður og hvernig? Er einhver aðkoma Kínverja að þessum rannsóknum en eftir því sem ég best veit hafa þeir verið með puttana í Bremerhafen auk hafna víðs vegar um heiminn, mjög svo í Evrópu. Um þetta er mikið skrifað í erlendum fjölmiðlum. Þetta segja ýmsir fréttaspekúlantar tengjast nýja “Silkveginum”, risavöxnum áformum Kínverja um verlsunarflutninga frá Kína. Þetta væri fróðlegt að fá skoðað í fjölmiðlum og þá með hliðsjón af Finnafirði.
Ef til vill er Kína ekkert verra en ýmsir aðrir aðilar. Þetta minnir hins vegar á þá griðarlegu hagsmuni og þau miklu öfl sem við væri að eiga ef til kastanna kæmi. 

Kannski er það góðs viti að Finnafjarðaráformin eru ekki einvörðungu á vegum fámennrar sveitarstjórnar heldur samfélagsins alls. En þá þarf samfélagið líka að gefa sér tíma til að ræða málið og síðan taka ákvarðanir að þeirri umræðu lokinni.

Stórskiphöfn – umskipunarhöfn fyrir norðurhvel jarðar eins og það er orðað svo hæversklega – hefur nefnilega afleiðingar. Það þarf að flytja inn einhverjar þúsundir starfmanna, reisa íbúðir fyrir þá og koma upp traustum innviðum sem gera góðu og gjöfugu samfélagi kleift að blómgast. Hvar vilja menn hafa þetta á forgangslistanum? Eru ekki einhver takmörk fyrir því hve hollt það er litlu samfélagi að vaxa hratt? Hvað með umhverfismálin; einhver áhrif hefur skipaumferð á mengun sjávar við Íslandsstrendur? Lagði umhverfisráðherra orð í belg þegar þetta var rætt í ríkisstjórn? Eða var þetta kannski ekkert rætt þar? Og hvað með Alþingi, á ekki að ræða þetta í þaula þar?

Hvernig væri, Óðinn og Björn, að þróa umræðuna um Finnafjörð ögn lengra og kafa í málið? Sömu áskorun sendi ég til annarra fjölmiðla. Ég legg til að þeir leggist í köfunarleiðngur í Finnafjörðinn.
https://nationalinterest.org/feature/china-buying-ports-influence-across-europe-26210
https://ig.ft.com/sites/china-ports/
https://www.forbes.com/sites/wadeshepard/2017/09/06/chinas-seaport-shopping-spree-whats-happening-as-the-worlds-ports-keep-going-to-china/