Fara í efni

HVERNIG Á AÐ TRYGGJA FRIÐINN?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.10.22.
Með réttlæti svarar utanríkisráðherra Íslands og segir heill mannkyns ráðast af því að sigrast á Rússum í Úkraínu. Svo mæltist ráðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
En svo má ekki gleyma hinu að við fyrirfinnumst líka, og fer að ég hygg ört fjölgandi, sem þykir þetta vera varasöm nálgun. Í Úkraínu heyr NATÓ nú stríð við Rússa undir forystu Bandaríkjanna; stríð sem átt hafði sinn aðdraganda og mun hafa afleiðingar og þeim mun alvarlegri sem stigmögnunin eykst.

Hvort tveggja – orsakir og afleiðingar - þarf að ræða af sögulegum skilningi, yfirvegun og alvöru.

Sífellt öflugri drápstækjum er beitt í stríðinu og er talað eftir því. Rússar hóta kjarnorkusprengju. Og ef þeir beita kjarnorkuvopnum þá sökkvum við Svartahafsflota þeirra og þurrkum út allan herafla þeirra í Úkraínu í einu vetfangi, sagði einn innsti koppurinn í búri vestanhafs í upphafi vikunnar. Í ræðu sem Biden Bandaríkjaforseti flutti í Javelin eldflaugaversksmiðjunum í vor sagði hann að það hefði sýnt sig að með vopnum þaðan mætti gera her Rússa að „viðundrum“. Þá var mikið klappað og hlegið. Og eflaust brosað í kampinn í Wall Street.
Nokkrum dögum síðar sagðist Biden íhuga að senda gamalreynda bandaríska sérsveitarmenn til Úkraínu. Nú eru þeir mættir á vettvang. Og vopnin flæða sem aldrei fyrr.

Í þessum hildarleik verður Ísland að reynast „verðugur bandamaður“ sagði utanríksráðherra okkar þjóðar í vikunni. Innilegheit á NATÓ fundunum bera því vott að framlag Íslands, þar með talið vopnaflutningar á stríðsvettvanginn, þykir „verðugt“. 

Austur í Kína rumskuðu menn fyrir nokkrum vikum við vopnaglamurstal. Blinken utanríkisráðerra Bandaríkjanna vildi enn fleiri vopn til Taiwan til að verjast Kína og hafði Bidenstjórnin þó þá þegar gert þrjá vopnasölusamninga við Taiwan. Hvatning til aukins vígbúnaðar var ítrekuð í vikunni.

Og aðrir glamra með. Stoltenberg framkvæmdastjóri NATÓ dregur hvergi af sér við að hvetja til vopnakaupa og yfir Íslandi  hafa sveimað hervélar NATÓ að æfa aðflug að flugvöllum – í boði hinnar verðugu ríkisstjórnar Íslands að sjálfsögðu. Verðugur og viljugur í þessu samhengi eru skyld hugtök.
Svo eru það hagsmunirnir. Eða hvað halda menn að framleiðendur Javelin flauga fái mikið í sinn hlut ef tekst að viðhalda eftirspurn?
Vopnaglamrið er ekki nýtt af nálinni. Obama stjórnin í BNA seldi meira af vopnum til Mið-Austurlanda en dæmi voru um frá lokum seinna stríðs og vel að merkja í Afganistan- og Íraksinnrásunum, í Sýrlandi, Jemen og Líbíu voru þeir Biden og Blinken gerendur enda þótt Bush júníor sæti við stýrið.
Alltaf var því trúað að til stæði að koma á réttlæti í kjölfar þess að vopnin töluðu. En það gerðist aldrei. Alltaf komu ný tilefni til innrása og átaka og þá gleymdist allt annað.
Uppgangur hjá þeim í Javelin er ekki ávísun á friðsamlegri heim, hvað þá réttlátari. Og undantekningarlaust gleymast fórnarlömd stríðsátaka.  Eða hvernig skyldu menn hafa það í Afganistan? Það er ekki lengra síðan en í haust að heimurinn stóð á öndinni.
Nú er allt að falla í gleymskunnar dá austur þar.
Áfram mætti telja dæmin um stigmögnun spennu. Horfum til dæmis til Moldóvu. Nýlega bárust fréttir af viðræðum Bandaríkjamanna við ráðamenn í Moldóvu. Í framhaldi af þeim var kynnt lagafrumvarp sem heimilar erlendum hersveitum að verja landamæri Moldóvu sem vel að merkja eru nærri suðurlandamærum Rússlands. Um leið var Dodon, fyrrum forseti Moldóvu og einn öflugasti stjórnmálamaður landsins en hliðhollari Rússum en NATÓ, fangelsaður og sakaður um landráð. Áður hafði útvarpsstöð sem þótti styðja málstað hans um of verið dæmd til fjársekta. Fjöldafundir gerast nú ofsafengnir í Moldóvu.
Athygli vekur að í umfjöllun stríðsmálafræðinga NATÓ er því fagnað hve ört dragi nú úr viðskiptum Moldóvu við Rússland en aukist að sama skapi við Vesturlönd. Koma þá upp í hugann orð Stoltenbergs á síðustu ráðstefnu milljarðarmæringanna í Davos að viðskipti séu pólitísk og eigi að vera pólitísk. 
þegar Evrópusambandið var í burðarliðnum var sagt að þar með væri fundin upp stríðsvörn framtíðarinnar: Að með viðskiptum og nánum tengslum landa og þjóða í milli yrði friðurinn tryggari, allir hefðu hag af því að halda friðinn.

Þetta virtust Rússar einnig vilja um og upp úr aldamótum. Það var hins vegar eitur í beinum heimsauðvaldsins. Við munum koma í veg fyrir að opnað verði á nýjar gasleiðslur frá Rússlandi til Vestur-Evrópu sagði Biden forseti fyrir ekki alls löngu og aðrir ráðamenn vestra tóku í sama streng. Og hvernig verður það gert var þá spurt. „Það mun koma í ljós“. Og nú hefur það komið í ljós með neðansjávar hryðjuverkum sem eyðliögðu gasleiðslurnar.
Samhliða þessu var opnuð ný gasleiðsla frá Noregi til Evrópulanda. 
Og svar Rússa? Þeirra verður nú vart í grennd við vestrænar gas- og olíuleiðslur. Riddari drepur hrók. Drottning drepur riddara. Peðin vilja að sinn kóngur tryggi réttlæti á skákborðinu.
Þið eruð í okkar liði skrifar sendiherra Bandaríkjanna í Morgunblaðið: „Bandaríkin og bandamenn þeirra  og samstarfsaðilar um allan heim tala nú einum rómi, sem aldrei fyrr.“
Ekki erum við þó öll í þessum eina rómi.
Ég veit um að minnsta kosti einn sem er það ekki.