Fara í efni

Hverjir eru stjórntækir?

Birtist í Mbl. 18.12.2003
Forsvarsmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa haft á orði að eina mögulega stjórnarmynstrið sé samstjórn þessara tveggja flokka. Þetta hafi komið í ljós við afgreiðslu lífeyrisfrumvarps ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstöðuflokkarnir séu vart hæfir til að sitja í ríkisstjórn. Þeir hafi ekki orðið einhuga um afgreiðslu málsins og viljað auk þess meiri tíma til umfjöllunar um það. Í þessu sambandi er vísað til þess að leitað hafi verið til formanna allra stjórnmálaflokkanna um hið umdeilda lífeyrisfrumvarp og þeim kynnt öll helstu efnisatriði þess. Þar sem þeir hafi lýst sig samþykka að málið yrði lagt fram var greinilega litið svo á að það væri nánast afgreitt. Við þetta er sitthvað að athuga. Í fyrsta lagi er það óskammfeilið að binda formenn stjórnmálaflokka trúnaði en gefa síðan í skyn að þeir eigi meiri hlutdeild í umræddu máli en efni standa til og að auki er þess jafnan látið ógetið í hverju gagnrýni þeirra og varnaðarorð hafi legið.

 Allt þetta mál og málatilbúnaðurinn þar í kring gefur okkur hins vegar glögga innsýn í stjórnunarhætti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Forsvarsmenn þessara flokka koma sér saman um nýskipan í lífeyrismálum þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara. Þeir kynna engum málið í eigin röðum fyrr en tveimur klukkustundum áður en umfangsmikið lagafrumvarp um málaflokkinn er lagt fram í 22. greinum og með ítarlegri greinargerð. Þegar í stað er málið afgreitt í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Annað hvort hafa allir þingmenn verið sammála öllum þessum breytingum sem erfitt er að trúa eða - sem er líklegra að þeir hafi verið beittir flokksaga. Þeim hafi einfaldflega verið skipað að styðja málið.

Þessi vinnubrögð voru að sjálfsögðu ekki viðhöfð í þingflokkum stjórnarandstöðunnar. En svo illa haldnir eru forsvarsmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks af sinni valdstjórnarhugsun að þeim dettur ekki í hug að þingmenn geti tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Og þess vegna keppast þeir nú við að finna það út hverjir hafi ráðið afstöðu þingmanna stjórnarandstöðunnar og þeir spyrja eins og ekkert sé sjálfsagðara: var það verkalýðshreyfingin eða eitthvað fólk úti í bæ! Ómaklegum aðdróttunum á borð við þessar hefur fyrst og fremst verið beint að Samfylkingunni, síður að Frjálslyndum eða VG. En hvað afstöðu einstakra þingmanna snertir er málið hins vegar ekki flóknara en svo í mínum huga, að þeir hafa einfaldlega haft mismunandi ástæður fyrir andstöðu við frumvarpið; einhverjir voru því ósammála í grundvallaratriðum, aðrir einstökum þáttum þess. Öll stjórnarandstaðan vildi hins vegar vandaðri umfjöllun en þá bráðameðferð sem ríkisstjórnin vildi við hafa og sem knúin var fram á síðustu dögum þingsins. Öllum beiðnum um vönduð vinnubrögð var samstundis hafnað.

Síðan hófust ásakanir um að stjórnarandstaðan væri ómarktæk og "óstjórnhæf" eins og það var kallað. Hún hefði með öðrum orðum á að skipa þingliði sem vildi hugsa málin upp á eigin spýtur og komast að niðurstöðu.

Þetta mál og afgreiðsla þess hefur gefið okkur góða innsýn í stjórnunarhætti í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Ríkisstjórnarflokkarnir eru hrifnir hvor af öðrum því þeir láta ekkert slá sig út af laginu, hvort sem verið er að gefa þjóðbankana, virkja á forsendum fjölþjóðlegra risafyrirtækja eða brjóta samninga á öryrkjum. Menn geta treyst því að bátnum verði aldrei ruggað svo að valdasetu verði ógnað. Þetta eru menn sem eru traustsins verðir. Enda hafa þeir á að skipa þingliði sem er stjórntækt!